Nov 15, 2023

Æviskrár þúsund íslenskra kvenna


Erna S. Egilsdóttir hefur tekið saman æviskrár 1.000 íslenskra kvenna og afhenti Kvennasögusafni það til varðveislu þann 14. nóvember. Æviskráin er flokkuð sem einkaskjalasafn Ernu og verður birt á vef Kvennasögusafn ásamt skjalaskrá þess.  Í starfshópi um verkið ásamt Ernu voru Gerður G. Óskarsdóttir, Katrín Kinga Jósefsdóttir og Helga Ólafsdóttir sem allar voru viðstaddar afhendinguna ásamt Ingibjörgu Steinunni Sverrisdóttur landsbókaverði.

Eins og segir í formála verksins: 

„Verulega hallar á konur í þeim æviskrám sem komið hafa út hér á landi, þar eru karlar í miklum meiri hluta. Tilgangurinn með æviskrám þúsund íslenskra kvenna sem hér birtast er að draga enn betur fram en áður hve stóran hlut konur áttu, þrátt fyrir allt, í þróun íslensks atvinnulífs, þjónustu og menningar hér á landi á fyrri tíð, en einkum á síðustu tveimur öldum. Vænst er að safnið geti orðið lesendum til fróðleiks og skemmtunar en ekki síður hvati að frekari athugunum eða rannsóknum, meðal annars um einstakar konur, hóp kvenna eða þátt kvenna á ákveðnum sviðum.“

Á forsíðu Æviskrárinnar birtist verk Guðrúnar Arndísar Tryggvadóttur frá árinu 2015 sem hún nefnir Formæðraherinn og er í eigu Listasafns Árnesinga.

Við hvetjum öll áhugasöm til að kynna sér æviskránna sem verður án efa uppspretta frekari rannsókna á lífi og verkum kvenna og þökkum á sama tíma Ernu fyrir frumkvæðið að verkinu, vinnuna sem hún lagði í það og fyrir gefa það Kvennasögusafni til varðveislu.

FormaedraherinnKristinTryggvad.jpg