Oct 1, 2023

Reiða stelpan


Kjörgripur októbermánaðar á Landsbókasafni er teikning úr skjalasafni Rauðsokkahreyfingarinnar sem er til varðveislu á Kvennasögusafninu. Hreyfingin notaði myndefni markvisst í baráttu sinni fyrir jafnrétti og bættum kjörum kvenna, bæði teikningar eftir meðlimi í hreyfingunni en einnig fundið efni svosem úrklippur úr erlendum tímaritum. 

Þessi teikning, ‚Reiða stelpan‘, er dæmi um fundna teikningu sem birtist endurtekið í efni Rauðsokka, stundum stór á A4 blaði og stundum mjög lítil, einhvers staðar í horni á blaðsíðu í tímaritinu Forvitið Rauð. Hún er bæði áberandi og sterk teikning, þar sem að stúlkan stendur djörf og ákveðin. Skarpar línurnar í andlitinu, sterkar augabrúnir og skeifan á munninum sýna að hún er ekki par sátt við ástandið. Hún heldur kvennamerkinu með báðum höndum eins og kylfu og þó að hún sé reið og gæti jafnvel kallast aggressív teikning þá er greinilegt að hún er ekki árásaraðilinn heldur er hún hingað komin til þess að verjast því sem á vegi hennar verður.

Ein leið þess að nota fundið myndefni er að nota það til þess að sýna samstöðu - en ‚reiða stelpan‘ sem að reyndist úrklippa úr frönsku blaði er einmitt mynd sem að er fengin að láni úr öðru riti frá öðru landi til þess að berjast fyrir sama málstað í nýju samhengi. 

Karólína Rós Ólafsdóttir og Boaz Yosef Friedman rannsökuðu teikningar Rauðsokka í sumar í samstarfi við Kvennasögusafnið og Íslenska teiknisetrið. Verkefnið var styrkt af Rannís Nýsköpunarsjóði námsmanna.

Raudsokkar_1

Raudsokkar_2.jpg