Dec 3, 2021

Kvennasögusafn hluti af Landsbókasafni í 25 ár


Þann 5. desember 1996 opnaði Kvennasögusafn formlega í Þjóðarbókhlöðunni. Í ræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þáverandi borgarstjóra Reykjavíkurborgar, við opnunina sagði hún: 

„Í dag fögnum við því að langþráður draumur Önnu Sigurðardóttur er loksins að rætast – þjóðararfurinn og kvennafræðin orðin eitt. Ég óska íslenskum konum og öllum þeim sem unna góðum fræðum til hamingju og segi Kvennasögusafn Íslands í Þjóðarbókhlöðunni formlega opnað.“ 

opnun_1996_01

Anna Sigurðardóttir (1908-1996) stofnaði Kvennasögusafn Íslands þann 1. janúar 1975 á heimili sínu ásamt bókasafnsfræðingunum Else Miu Einarsdóttur og Svanlaugu Baldursdóttur. Í stofnsamningi þess segir í 5. grein:  

„Kvennasögusafn Íslands sem slíkt má aldrei leggja niður. Verði safninu, að mati stofnenda eða arftaka þeirra í starfi, tryggð framtíðarvist og starfsskilyrði á vegum Þjóðarbókhlöðu eða annars ríkisbókasafns eða skjalasafns, má fella safnið inn í það safn sem sérdeild með sínu sérheiti." 

Eftir áratugalanga vinnu við að tryggja Kvennasögusafni framtíðarsess var árið 1991 ljóst að Kvennasögusafn fengi inni á Þjóðarbókhlöðu, samningar lágu fyrir þegar húsið opnaði árið 1994 og loks fluttist Kvennasögusafn frá íbúð Önnu á Hjarðarhaganum snemma árið 1996 og opnaði formlega eins og fyrr segir þann 5. desember.  

opnun_1994

Við opnunina gaf Helga Kress fáein bréf Júlíönu Jónsdóttir skáldkonu sem „tákn um týnda sögu kvenna, sem finnast víða, ef vel er að gáð.“ Júlíana var fyrst íslenskra kvenna til að gefa út ljóðabók. Bréfin, sem voru meðal þeirra síðustu sem hún skrifaði, hafa verið gerð aðgengileg á stafrænan hátt í tilefni af því að 25 ár eru liðin frá opnun Kvennasögusafns í Þjóðarbókhlöðunni.

Juliana_Jonsdottir_bref

Kvennasögusafn er nú hluti af Landsbókasafni Íslands ­­– Háskólabókasafni. Það bæði varðveitir og kemur á framfæri framlagi kvenna til sögu þjóðarinnar, öllum til heilla.  

opnun_simskeyti_Vigdis_Finnboga

Hljóðupptökur af opnun safnsins og kvöldvökunnar sem var haldin um kvöldið hafa verið endurgerðar stafrænt. Smellið til að hlusta: 

 

Nánar má lesa um upphaf Kvennasögusafns í grein Erlu Huldu Halldórsdóttur sem birtist í Ritmennt árið 1997.

opnun_1996_01.jpg