Það gleður okkur mjög að nú er hægt að lesa tvær bækur Önnu Sigurðardóttur, stofnanda Kvennasögusafns, á vefnum bækur.is ásamt riti sem var skrifað henni til heiðurs, en það var fyrsta fræðibókin sem gefin var út konu til heiðurs að okkur vitandi.
„Sv.: Þú fluttir einu sinni erindi um íslenskar verkakonur í ellefu hundruð ár. Er þörf á að skrifa kvennasögu?
A.S.: Karlaþjóðfélagið í þeim menningarhluta heimskringlunnar sem við búum á hefir öldum saman séð um það hvernig saga mannskynsins er skrifuð. Þó er það eins og kvenréttindakonan sænska, Elin Wagner, sagði árið 1941 að saga karla og kvenna er samanslungin eins og uppistaða og fyrirvaf í dúk á vefstól. En því hefur verið komið þannig fyrir að aðeins karlmannalega fyrirvafið kemur í ljós í sögunni. Af þessum sökum hefir saga kvenna horfið að verulegu leyti, nema hvað endrum og eins glittir í hana, t.d. þegar einhver kona hefir verið ofjarl eða hefir haft áberandi frumkvæði í ástarmálum. ... Flest svið mannlegs lífs eru vettvangur kvenna á einn eða annan hátt og ætti saga þeirra því hvarvetna að koma fram. Á einu sviði — við fjölgun mannkynsins — er framlag kvenna margþúsundfalt miðað við framlag karla, bæði á tíma og orku. En einmitt þar er rótin að allri þeirri skekkju sem er á stöðu kvenna og karla á okkar menningarsvæði.“ Konur skrifa til heiðurs Önnu Sigurðardóttur (1980).
„Margar bækur mætti skrifa um vinnu kvenna á Íslandi. Með bók minni vildi ég reyna að stuðla að því að þær bækur yrðu til sem fyrst. Vikið er að fjölmörgum atriðum sem hvert og eitt eru verðug rannsóknarefni fyrir sagnfræðinga og aðra fræðimenn.“ Vinna kvenna á Íslandi í 1100 ár (1985)
„Vinnan við þessa bók hefir tekið langan tíma. Á síðasta ári varð mér ljóst að einhvern tíma yrði ég að láta staðar numið, enda þótt ég væri sí og æ að rekast á eitthvað sem girnilegt var til fróðleiks og mig langaði til að fella inn í einhvern kafla.“ Allt hafði anna róm áður í páfadóm (1988)