Aug 17, 2020

Nýjar afhendingar: Langt ástarbréf


Í desember árið 1900 bað Guðrún Lárusdóttir heitmann sinn, Sigurbjörn Á Gíslason, að senda sér langt bréf næst. Hann svaraði kallinu og sendi henni bréf sem hann hafði límt saman svo það spannaði marga metra. Þau gengu í hjónaband árið 1902. Síðastliðinn maí bárust safninu bréfaskipti þeirra sem spanna þrjá áratugi. Sjá nánar um bréfasafnið.

Það sem af er ári hafa níu einkaskjalasöfn verði afhent Kvennasögusafni, stór og smá, sem innihalda bréf, fundargerðir, ræður, ljósmyndir, plaköt og fleira er varðar bæði einstaklinga en einnig réttindabaráttu á borð við áhugafélag um brjóstagjöf, sjálfsákvörðunarrétt kvenna og fleira. Við áréttum að Kvennasögusafn tekur við hvers kyns skjölum sem og einstaka munum og um að gera að hafa samband til að afhenda þau.

Uppfært í september 2020: Víðsjá ræddi við Rakel Adolphsdóttur á Kvennasögusafni um langa ástarbréfið sem Sigurbjörn ætlaði að yrði nógu langt til að geta faðmað Guðrúnu þar sem hann var erlendis og ekki í aðstöðu til að gera það sjálfur. Viðtalið er aðgengilegt á heimasíðu RÚV.

KSS20204GudrunLarusdottir.jpg