Árið 1930 stóð heildsalinn Þórður Sveinsson og Co., sem flutti inn sígarettumerkið Teofani, fyrir viðburði sem kalla má fyrstu íslensku fegurðarsamkeppnina. Hugmyndin átti uppruna sinn í Englandi. Íslenskar konur voru hvattar til að senda inn mynd af sér, sem voru síðan fjölfaldaðar og dreift í íslensku sígarettupakkana. Upphaflega hugmyndin var sú að almenningur greiddi atkvæði með því að senda myndirnar aftur til fyrirtækisins og átti ein mynd að jafngilda einu atkvæði. Þegar til kastanna kom var hinsvegar breskur leikstjóri, Charles B. Cochrane, fenginn til að dæma um sigurvegarana. Í kjölfar fegurðarsamkeppninnar fór fram önnur samkeppni, þar sem fólk var hvatt til að safna myndunum. Sá sem yrði fyrstur til að safna öllum 50 myndunum fengi að launum útsýnisflug yfir Reykjavík. Um sama leyti stóð Tóbaksverslun ríkisins, sem flutti inn sígarettumerkið Commander, fyrir svipaðri markaðsherferð. Hjá Commander voru það hins vegar landslagsmyndir sem prýddu sígarettupakkana.
Úrslitin í Teofani-keppninni voru tilkynnt á Alþingishátíðinni 26. júní 1930. Þrjár stúlkur hrepptu efstu sætin og hlutu allvegleg peningaverðlaun. Skoðanir fólks á þessu uppátæki sígarettufyrirtækisins voru skiptar og sumum stúlkunum sem tóku þátt fannst tilstandið í kringum keppnina vandræðalegt. Lesa má nánar um keppnina í umfjöllun DV frá árinu 1982.
Árið 2008 stóð Kvennasögusafn Íslands fyrir átaki til að nafngreina konurnar á myndunum. Af þeim 48 myndum sem eru varðveittar hefur tekist að nafngreina allar nema sex. Kvennasögusafn þakkar öllum sem lögðu hönd á plóginn. Kvennasögusafn tekur vel á móti öllum ábendingum varðandi Teofani samkeppnina.
*Fyrst birt árið 2008. Síðast uppfært 23. júní 2020.