Sigurður Jónasson frá Eyjólfsstöðum í Vatnsdal (1863-1887) þýddi tímamótarit John Stuart Mills, Kúgun kvenna, á íslenska tungu. Sigurður lést 24 ára gamall og ritið kom ekki út fyrr en að honum látnum, árið 1900. Það var síðan endurútgefið af Hinu íslenzka bókmenntafélagi árið 1997. Árið 2015 var minnisvarði um Sigurð afhjúpaður á Blönduósi.
Úr grein Þórs Jakobssonar í Morgunblaðinu 4. febrúar 2015:
Sigurður Jónasson (1863-1887) frá Eyjólfsstöðum í Vatnsdal í Húnavatnssýslu féll frá ungur maður, drukknaði af skipi á 24. aldursári. Hann var mörgum harmdauði og eðlilega sár missir foreldrum sínum og fjölskyldu, vinum og vandamönnum.Það er sjaldgæft að menn sem hafa lifað jafnstutta ævi og Sigurður hafi unnið svo eftirminnileg andleg afrek að í minnum verði höfð löngu eftir þeirra dag. En þegar Sigurði var skyndilega kippt burt hafði sannast að mikils var af honum að vænta. Hann yrði líklega einn af bestu sonum þjóðar sinnar á tímum framfara og nýrra tækifæra.
Áður en Sigurður féll frá hafði honum auðnast að þýða rit sem heitir á frummálinu „On the Subjection of Women“ og er eftir enska heimspekinginn og stjórnmálafræðinginn John Stuart Mill. Ritið kom fyrst út árið 1869 og reyndist verða grundvallarrit í sögu kvenréttindabaráttu í heiminum. Það var snemma þýtt á fjölda tungumála. Bókin kallast á íslensku „Kúgun kvenna“ og er þýðingin á einstaklega fallegu og hreinu máli. Bregður svo við að unun er að lesa þótt efnið sé víðfeðmt og röksemdafærslan stundum margslungin.
Nokkuð dróst að handrit Sigurðar yrði gefið út en það mun þó hafa nýst áhugafólki um kvenréttindi þann rúma áratug sem leið frá andláti hans til útgáfu ritsins að tilstuðlan Hins íslenska kvenfélags árið 1900. Útgáfa þessi dugði síðan vel og lengi en þar kom að Hið íslenska bókmenntafélag gaf hana út árið 1997 að áeggjan nemenda og kennara í Kvennafélagsfræði við Háskóla Íslands og öðru sinni árið 2003. Bókin er eitt Lærdómsrita Bókmenntafélagsins, en í henni eru jafnframt frægir fyrirlestrar Páls Briem, „Um frelsi og menntun kvenna. Sögulegur fyrirlestur“ (1885), og Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, „Fyrirlestur um hagi og réttindi kvenna“ (1887), auk ítarlegs forspjalls Auðar Styrkársdóttur.
Sigurður Jónasson var sonur hjónanna Jónasar Guðmundssonar (1835-1913) og Steinunnar Steinsdóttur (1840-1915) á Eyjólfsstöðum í Vatnsdal. Hann var námfús og varð stúdent frá Reykjavíkurskóla árið 1884. Hélt hann þá til Kaupmannahafnar og lagði stund á málfræðinám við háskólann þar. Sigurður var á leið út til að halda áfram námi sínu er hann féll útbyrðis skammt frá Vestmannaeyjum 7. ágúst 1887. Systir Sigurðar, Margrét Oddný (1879-1961), var þá 8 ára en á Eyjólfsstöðum var annað barn, senn eins árs, sem þau Jónas og Steinunn ólu upp, bróðursonur Jónasar, Sigurður Jóhannesson Nordal (1886-1974).
Við fráfall Steinunnar 1915 skrifaði Sigurður prófessor fallega minningargrein um hjartkæra fóstru sína þar sem hann lýsir því hve mjög hún vel gefin stúlkan hefði farið á mis við menntun í uppvexti sínum. Þetta var hlutskipti kvenna á þeirri tíð. Hann nefnir líka hve margt hún vissi þrátt fyrir það og var þá viðkvæðið gjarnan: „Hann Sigurður minn sálugi sagði mér það“, og átti þá við sinn fróða son sem hún missti. (Sigurður Nordal: Mannlýsingar III, Almenna bókafélagið 1986, bls. 94).
Slysfarirnar við Vestmannaeyjar urðu vini Sigurðar Jónassonar og skólabróður, Einari Benediktssyni, að yrkisefni og lýsir hann martröð sinni í kvæðinu „Draumur“. Nánar um Sigurð má sjá í grein eftir mig í „19. júní“, Ársriti Kvenréttindafélags Íslands 1999, bls. 56-57: https://view.publitas.com/kvenrettindafelag/19-juni-1999/page/56-57.
Staðið hefur til alllengi að gera skil minningu Sigurðar Jónassonar með einhverjum áþreifanlegum hætti. Færi vel á að reisa honum látlausan minnisvarða á 100 ára afmælisári kosningaréttar kvenna í höfuðstað Húnvetninga, Blönduósi. Hefur verið vel í þá hugmynd tekið hjá þeim sem hún hefur verið kynnt fyrir. Vona ég að svo verði raunin hjá öðrum þar til rætist.
*Fyrst birt árið 2008