Nína Tryggvadóttir var fædd 16. mars 1913 á Seyðisfirði.
Foreldrar hennar voru Tryggvi Guðmundsson, kaupmaður þar og síðar gjaldkeri í Reykjavík, og seinni kona hans Gunndóra Benjamínsdóttir.
Nína stundaði nám við Kvennaskólann í Reykjavík. Þá lærði hún hjá Ásgrími Jónssyni listmálara 1932—1933. Árið eftir var hún í myndlistarnámi hjá Finni Jónssyni og 1934—1935 í myndlistarskóla hans og Jóhanns Briem. Árið 1935 hlaut Nína styrk til listnáms við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfin og lauk námi þaðan 1939. Hún stundaði framhaldsnám hún í París 1939—1940 og hjá Fernard Leger og Hans Iloffniann í New York 1942—1945.
Nína hélt sína fyrstu sérsýningu í Garðastræti 17 í Reykjavík 1942, en fyrsta sérsýning hennar erlendis var í New York í New Art Circle 1945. Nína kom víða við í störfum sínum; skrifaði ljóð, samdi og myndskreytti barnabækur og til eru handrit að ballettum, smásögum, kvikmynda- og útvarpsþáttum. Hún var að öllum líkindum fyrsti íslenski listamaðurinn sem málaði módernískt portrett, en það var af Steini Steinarri skáldi. Nína vann einnig myndverk úr gleri og mósaík, m.a. steinda glugga fyrir Þjóðminjasafn Íslands og mósaíkmynd á kórgafl í Skálholtskirkju.
Nína var gift dr. Alfred L. Copley, lækni í New York. Dóttir þeirra er Una Dóra Copley.
Ljóð:
Ég stend
á miðjum vegi
einangruð,
með ekkert framundan
og ekkert að baki.
Sérhver breyting
er ný byrjun
sérhver byrjun
flótti frá því sem var,
hvert skref
formlaus tilfinning
af ósigri,
ný refsing,
nýr dauði,
nýtt líf.
Heimildir: Morgunblaðið, 26.06.1968, bls. 15 og Ártöl og áfangar í sögu íslenskra kvenna, bls. 75.
Ljóðið, ásamt fleiri ljóðum Nínu, voru einnig birt í tímaritinu Líf og list árið 1950.
---
Einkaskjöl á Þjóðarbókhlöðunni:
Nokkur bréf frá Nínu er varðveitt á Kvennasögusafni, sjá KSS 6 og KSS 72.
Bréf frá Nínu til Erlendar í Unuhúsum eru varðveitt á handritasafni, sjá Lbs 5 NF.

Ítarefni:
Ljósmyndir:
*Kvennasögusafn Íslands er skjala- og upplýsingasafn um sögu kvenna. Við tökum við hvers kyns einkaskjölum; bréfum, dagbókum, fundargerðarbókum o.s.frv. Hafið samband til að afhenda slík skjöl.*
* Höfundur: Rakel Adolphsdóttir
* Fyrst birt 15. mars 2019
* Síðast uppfært 4. júní 2020