Kvennaverkfall 2023

Kvennaverkfall 2023

vefur í vinnslu [október 2024]

enn er hægt að nálgast allar upplýsingar á heimasíðu kvennaverkfallsins

Baráttufundurinn á Arnarhóli 14-15

Konur og kvár sameinast í báráttunni gegn ójafnrétti.
Kynnar: Aldís Amah Hamilton og Ólafía Hrönn Jónsdóttir.
 
Fram komu:
Tónlistaratriði:
Una Torfa
Sóðaskapur
Ragga Gísla

ásamt fjölbreyttum hópi kvára og kvenna:

Jafnréttisparadísin

Kristín Ástgeirsdóttir Femínisti

Í það minnsta 40% kvenna verða fyrir kynbundnu og kynferðilegu ofbeldi á lífsleiðinni. Fatlaðar konur, konur af erlendum uppruna og kvár eru í mun meiri hættu en aðrir að verða fyrir ofbeldi. Kallarðu þetta jafnrétti?

 
Sanna Magdalena Mörtudóttir Borgarfulltrúi

Óvænt útgjöld upp á 80.000 er staða sem 7 af hverjum 10 einstæðum mæðrum geta ekki mætt. Þetta er veruleiki sem ég þekki sjálf úr minni æsku. Kallarðu þetta jafnrétti?

 
Sunna Elvíra Lögfræðingur hjá ÖBÍ réttindasamtökum

Fatlaðar konur eru 10 sinnum líklegri til þess að vera beittar ofbeldi en aðrar konur og það getur verið erfiðara fyrir þær að segja frá eða sækja sér nauðsynlega aðstoð út af viðmóti og aðgengi. Kallarðu þetta jafnrétti?

 
Blessing Nkiruka Chukwu Starfskona á hjúkrunarheimili

Konur af erlendum uppruna vinna lengri vinnudaga, búa við minna starfsöryggi og lægri laun en aðrar konur, og eru líklegri til að verða fyrir kynferðisofbeldi. Kallarðu þetta jafnrétti?

 
Lilja María Hönnudóttir Listakona

Einhverfar konur eiga að gera allt til þess að fela einhverfuna sína. Meðan einhverfir karlar mega vera allt og allskonar er hlutverk kvenna fyrst og fremst að láta lítið fyrir sér fara. Kallarðu þetta jafnrétti?

 
Jelena BjeleticSjúkraliði og leikskólakennari

Ég vinn í kvennastétt í tveimur, stundum þremur vinnum og ber ábyrgð á vellíðan og valdeflingu einstaklinga sem ég er að sinna. Samt hef ég ekki nægan tíma til að hvíla mig og valdefla sjálfa mig. Kallarðu þetta jafnrétti?

 
Veiga Grétarsdóttir Sulebust Kona

Eftir að ég kom út sem kona, þá þarf ég stundum að leika karlmann til að fá sömu þjónustu og virðingu og ég fékk alltaf áður. Kallarðu þetta jafnrétti?

 
Halldóra Þöll Þorsteins Leikkona

Nauðgunarmenning er svo rótgróin í íslensku samfélagi að konur og kvár segjast oft vera ‘heppin’ að hafa bara orðið fyrir áreitni en ekki alvarlegu ofbeldi. Kallarðu þetta jafnrétti?

 
Birta Ósk Hönnu Transaktívisti og rannsakandi

Kvár eru jaðarsett í íslensku samfélagi. Hatursfullir einstaklingar þagga niður í baráttumálum kvára með því að kalla okkur ímyndunarveik, athyglissjúk og geðveik. Kallarðu þetta jafnrétti?

 
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir Fyrrverandi utanríkisráðherra

Konur og börn þeirra eru fórnarlömb í vopnuðum átökum. Samt hafa konur aðeins verið 13% þeirra sem hafa tekið þátt í friðarviðræðum á síðustu 30 árum og þær eru aðeins 6% þeirra sem hafa undirritað friðarsamninga. Kallarðu þetta jafnrétti?

 
Agnieszka Sokolowska Túlkur og þýðandi

Ég er kona af erlendum uppruna og mér er mismunað á hverjum einasta degi – af vinnuveitendum því ég er kona OG útlendingur, af heilbrigðiskerfinu því ég er kona OG útlendingur, af íslensku samfélagi því ég er kona OG útlendingur. Kæru konur og kvár sem voruð svo heppin að fæðast í þessu landi – ef glerþakið er yfir ykkur, þá er okkur, konur af erlendum uppruna, borið til grafar í glerkistu. Kallið þið þetta helvítis jafnrétti?

 
Una Torfadóttir Tónlistarkona

Atvinnutekjur kvenna eru enn um 21% lægri en karla og hefðbundin kvennastörf eru talsvert verr launuð en karlastörf. Kallarðu þetta jafnrétti?

 
Dagskránni var sjónvarpað af RÚV.