Kristín Ólafsdóttir (1889–1971)

Kristín Ólafsdóttir stúdent einKristín Ólafsdóttir (1889–1971) var fyrst kvenna til að útskrifast frá Háskóla Íslands. Hún lauk prófi í læknisfræði árið 1917.

Kristín fæddist á Lundi í Lundarreykjadal 21. nóvember 1889. Foreldrar hennar voru Ingibjörg Pálsdóttir og séra Ólafur Ólafsson. Hún var fjórða í röð sex systkina. Kristín lauk stúdentsprófi utan skóla vorið 1911, hún var þriðja konan sem lauk stúdentsprófi á Íslandi. 

Í læknadeildinni kynntist hún Vilmundi Jónssyni og gengu þau í hjónaband árið 1916. Störfuðu þau hjón á Ísafirði snemma eftir útskrift en héldu svo til framhaldsnáms í Danmörku og Noregi. Kristín var kandídat á fæðingardeild Rigshospitalet í Kaupmannahöfn (ágúst 1918 – apríl 1919 og sept. – nóv. 1919) og lyflækningadeild Ulleval-sjúkrahússins í Ósló (maí – ágúst 1919).

Kristín og Vilmundur sneru aftur til Ísafjarðar síðla árs 1919. Þar sinnti hún fyrst og fremst lyflækningum. Kristín kenndi einnig heilsufræði við unglingaskólann á Ísafirði og Húsmæðraskólann Ósk. Hjónin festu kaup á íbúðarhúsi við Silfurgötu 7 á Ísafirði og var þar læknastofa þeirra til húsa þar til Vilmundur var skipaður Landlæknir árið 1931. Þá fluttist fjölskyldan búferlum til Reykjavíkur og þar opnaði Kristín eigin læknastofu. 

Kristín kom að félagsmálum og var meðal annars einn stofnenda Félags háskólakvenna 1928, sat í barnaverndarnefnd 1946–1952 og skólanefnd Húsmæðraskólans í Reykjavík 1941–1946. 

Kristín skrifaði bækur og greinar um heilsufræði, til dæmis Heilsufræði handa húsmæðrum og Manneldisfræði handa húsmæðraskólum

Börn þeirra: Guðrún f. 1918, Ólöf f. 1920, Þórhallur f. 1924

*Kvennasögusafn Íslands er skjala- og upplýsingasafn um sögu kvenna. Við tökum við hvers kyns einkaskjölum; bréfum, dagbókum, fundargerðarbókum o.s.frv. Hafið samband til að afhenda slík skjöl.*

Kristín Ólafsdóttir stúdent hópurKristín Ólafsdóttir 1912 Háskóli Íslands aldarafmaeli.hi.is aratugur 1911 1920Kristín Ólafsdóttir málverk

*Rakel Adolphsdóttir tók saman