Kristín Eggertsdóttir bæjarstjórn


Kristin Egg.

1911-1914 í bæjarstjórn Akureyrar


*20.4. 1877 á Kroppi í Hrafnagilshreppi    †1924 á Akureyri 

Foreldrar: Eggert Davíðsson og kona hans Jónína Vilhelmína Kristjánsdóttir. 

Ógift og barnlaus. 


Kristín var elst sex systkina og ólst upp hjá foreldrum sínum á ýmsum bæjum við Eyjafjörð. Snemma bar á mikilli námsfýsi Kristínar og þrá til að afla sér menntunar. Hún stundaði nám við Kvennaskólann á Laugalandi í Eyjafirði 1888-90 og 1892-94. Eftir það kenndi hún í eitt ár í Munkaþverársókn í Eyjafirði en hóf þá kennslu við sinn gamla skóla, sem flutti til Akureyrar haustið 1896. Þar kenndi Kristín til vors 1901. Hún var við nám í Reykjavík á árunum 1901-1905 en ekki er vitað hvar eða nákvæmlega hvenær. Hún fór til Noregs árið 1905 og bjó þar í tvö ár og var annað árið í hússtjórnarskóla.

Kristín varð forstöðukona sjúkrahússins á Akureyri árið 1907 og gegndi því starfi til ársins 1912. Eftir það rak hún greiðasölu í bænum um tíma. Hún dvaldi í Englandi og Danmörku 1913-14 en ekki er vitað hver tilgangurinn var með þeirri dvöl. Heimkomin hóf hún rekstur hótels á Oddeyri og rak það til dauðadags.

Kristín var kjörin í bæjarstjórn af kvennalista árið 1911 með tæplega 17% atkvæða og sat í bæjarstjórn í þrjú ár. Hún átti sæti í kjörstjórn, skólanefnd og fátækranefnd. Kristín var í fyrsta sæti kvennalista á Akureyri árið 1923 og Anna Magnúsdóttir kennslukona var í öðru sæti. Listinn hlaut þá aðeins um 8% atkvæða. 


Heimild:
Rannveig Oddsdóttir: „Kristín Eggertsdóttir“ í tímaritinu Súlur 1992, 19 (1), bls. 89-95
Norðurland, 7. janúar 1911
Íslendingur, 3. janúar 1923


Stafræn útgáfa © Útgáfuréttur 2008 Kvennasögusafn Íslands