Katrín Thoroddsen (1896-1970)

Katrín Thoroddsen, Ljósmyndasafn íslands, facebookLæknir og þriðja þingkona Íslendinga.

Katrín lauk stúdentsprófi árið 1915 og læknisfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1921. Hún stundaði framhaldsnám í sjúkrahúsum í Noregi, Danmörku og Þýskalandi 1921–1923. Varð viðurkenndur sérfræðingur í barnasjúkdómum árið 1927. Hún var fyrst íslenskra kvenna sem skipuð var héraðslæknir 1924. Hún starfaði síðar sem læknir í Reykjavík og sérhæfði sig í barnalækningum.

Katrín hélt erindi í boði Jafnaðarmannafélags Reykjavíkur árið 1931 er hún nefndi Frjálsar ástir. Erindi um takmarkanir barneigna. Hún endurflutti erindið hjá Guðspekifélaginu í Reykjavík og flutti það einnig í útvarpi. Málflutningur Katrínar vakti mikla athygli og henni bárust mörg bréf með ýmis konar fyrirspurnum og beiðnum sem margar hverjar báru vott um fáfræði. I ljósi þess ákvað Katrín að láta prenta fyrir lesturinn. Hann var gefinn út af Íslandsdeild Alþjóða Samhjálpar verkalýðsins í lok ársins 1931.

Katrín var varaþingkona Reykjavíkinga október–nóvember 1945 fyrir Sameiningarflokk alþýðu — Sósíalistaflokkinn. Hún var kjörin þingkona fyrir sama flokk árið 1946 og sat á þingi til 1949. Hún var fulltrúi Sósíalistaflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur kjörtímabilið 1950—1954.

Katrín var virk í Kvenréttindafélagi Íslands og var meðal annars formaður Menningar- og minningarsjóðs kvenna.

 

Heimildir og ítarefni

  • Alþingi.is
  • Arnþór Gunnarsson, „Kona í karlaveröld. Þáttur Katrínar Thoroddsen í jafnréttisbaráttu íslenskra kvenna 1920-1960“, Sagnir 11. árg, 1. tbl. 1990, bls. 35-42
  • Ármann Jakobsson, „Mannavinur í stjórnmálum. Á aldarafmæli Katrínar ThoroddsenVikublaðið5. árg., 26. tbl. 5. júlí 1996, bls. 4-5
  • Ármann Jakobsson, „Staksteinar í fulltrúalýðræðinu : Katrín Thoroddsen (1896-1970) og Hulda Jakobsdóttir (1911-1998) í Fléttur IV. Margar myndir ömmu, Reykjavík 2016, bls. 143-159
  • Guðrún Gísladóttir og Valgerður Gísladóttir. „Katrín Thoroddsen. Réttur, 59((2)), (1976), bls. 97-103
  • Erla Hulda Halldórsdóttir og Guðrún Dís Jónatansdóttir. Ártöl og áfangar í sögu íslenskra kvenna. Reykjavík: Kvennasögusafn Íslands, 1998, bls. 51
  • Kristín Ástgeirsdóttir, “Katrín Thoroddsen.” Andvari 2007, bls. 11–68
  • Ragnhildur Vigfúsdóttir. “Kvenréttindakonan Katrín Thoroddsen læknir.” Vera, 11:6, 1992, bls. 2

*Kvennasögusafn Íslands er skjala- og upplýsingasafn um sögu kvenna. Við tökum við hvers kyns einkaskjölum; bréfum, dagbókum, fundargerðarbókum o.s.frv. Hafið samband til að afhenda slík skjöl.*

*Fyrst birt 27. apríl 2018. Síðast uppfært 4. júlí 2018.