Spurt&svarað

Hver hannaði merki Kvennasögusafns?

Kristín Þorkelsdóttir (f. 1936), grafískur hönnuður, hannaði merki Kvennasögusafns og var það tekið í notkun í maí 1975. Kristín hefur hannað fjölmörg merki ásamt því að hafa hannað peningaseðlana sem nú eru í notkun á Íslandi. Þá er hún einnig myndlistakona. Hún stofnaði og rak eina stærstu auglýsingastofu landsins, AUK - Auglýsingastofu Kristínar.
*spurningu svarað í nóvember 2018

Hver var fyrsta konan á Íslandi sem tók bílpróf?

Fyrsta konan til að taka bílpróf á Íslandi var Áslaug Þorláksdóttir Johnson. Skírteinið hennar var gefið út 21. september árið 1918 og var nr. 81. Það þýðir að hún var 81. manneskjan til að fá ökuskírteini á Íslandi en fyrsta ökuskírteinið var gefið út 17. júní árið 1915. Hægt er að lesa meira um Áslaugu á timarit.is. 
*spurningu svarað í ágúst 2018

Hver hannaði merki kvennafrísins?

Valerie Pettis hannaði merki kvennaáratugs Sameinuðu þjóðanna sem varaði frá 1975-1985. Merkið var notað á ýmsan hátt víðsvegar um heim til þess að halda upp á kvennaárið 1975 sem og allan kvennaáratuginn. Á Íslandi var merkið notað í nælur, slæður og á aðrar vörur en líka til að merkja allt efni sem tengdist kvennafrídeginu 1975 og var þá sett dagsetningin 24. október fyrir ofan merkið, t.d. á límmiðan sem myndin hér að neðan er af. 
*spurningu svarað í maí 2018

Kvennafri 24 okt - limmidi

Hvenær var Ljósmæðrafélag Íslands stofnað?

Ljósmæðrafélag Íslands var stofnað í Reykjavík 2. maí 1919. Það var fyrsta stéttarfélag faglærðra kvenna á Íslandi. Í 2. grein laga félagsins segir: „Tilgangur félagsins er að efla hag ljósmæðrastéttarinnar og glæða áhuga íslenskra ljósmæðra fyrir öllu því, er að starfi þeirra lýtur, og stuðla að því, að ljósmæður þær, er fengið hafa námsstyrk, verði við starf sitt ekki skemur en 5 ár, nema forföll hamli." Fyrstu stjórn félagsins skipuðu Þuríður Bárðardóttir formaður, Þórdís E. Jónsdóttir ritari og Þórunn Á. Björnsdóttir gjaldkeri. Árið 1922 hóf félagið útgáfu á Ljósmæðrablaðinu og er það enn gefið út [árið 2018]. Er það því elsta kvennablaðið á Íslandi sem er enn í útgáfu.
*spurningu svarað í maí 2018

Hvenær var getnaðarvarnarpillan tekin í notkun á Íslandi í fyrsta sinn?

Á Íslandi var pillan tekin á lyfjaskrá árið 1967. Stöku kvensjúkdómalæknar höfðu þó ávísað henni áður en þá eingöngu til giftra kvenna.
Á árinu 1951 unnu rannsóknarmenn hjá efnafræðifyrirtækinu Syntex í Mexíkóborg að því að þróa lyf við tíðaverkjum. Úr þessum tilraunum varð til efni sem bæði hindraði egglos og hæfði til inntöku. Fyrsta skrefið að getnaðarvarnarpillu var stigið, en hún kom þó ekki á markað fyrr en upp úr 1960.
*óvíst hvenær spurningu var fyrst svarað

Hvenær fengu íslenskar konur kosningarétt til Alþingis?

Konur fengu kosningarétt til Alþingis í tveimur áföngum. Fyrri áfanginn var 19. júní 1915 er konungur staðfesti lög frá Alþingi um að íslenskar konur og vinnumenn, 40 ára og eldri, skyldu fá kosningarétt. Aldurinn átti síðan að lækka um eitt ár á ári, þannig að árið 1931 yrðu konur komnar með jafnrétti við karlmenn að þessu leyti. Í kosningunum 1916 bættust rúmlega 12.000 konur í kjósendahópinn og ætla má að um 1.500 vinnumenn hafi bæst í hóp karlkjósenda. Aðrir 1.500 karlmenn bættust í hópinn því nú var ekki lengur skilyrði að greiða 4 krónur í útsvar. Síðari áfangann má segja að Danir hafi fært íslenskum konum með Sambandslagasamningnum. Hann var gerður árið 1918. Ríkisborgararéttur varð gagnkvæmur með honum og í framhaldi af því var komið á jafnrétti karla og kvenna við kosningar á Íslandi árið 1920.
*spurningu svarað í september 2015

Hvenær komu fyrstu blöð kvenna út á Íslandi?

Fyrsta blaðið sem íslensk kona ritstýrði og gaf út var ársritið Draupnir sem Torfhildur Hólm gaf út á árunum 1891-1908. Það var safn af skáldsögum og sönnum sögum, eins og sagði á titilblaði þess, og stöku sinnum birtust þar fréttir af kvennabaráttunni í útlöndum. Árið 1895 hófu göngu sína tvö blöð, sérstaklega ætluð konum, og í eigu og ritstjórn kvenna, blaðið Framsókn sem kom út til ársins 1901, og Kvennablaðið, sem kom út til ársins 1919. Hér má finna lista yfir kvennablöð sem komu út á Íslandi. Flest ritin má lesa á vefnum www.timarit.is.
*spurningu svarað í janúar 2012

Hvenær urðu fóstureyðingar frjálsar á Íslandi?

Ísland var eitt fyrstu landanna í heiminum sem heimilaði fóstureyðingar. Það var árið 1935 en þær voru eingöngu leyfðar á læknisfræðilegum forsendum. Árið 1975 var sett löggjöf sem heimilaði læknum að eyða fóstri af félagslegum ástæðum en ekki aðeins heilsufarslegum. Fóstureyðingar voru engu að síður enn ekki frjálsar því kona sem æskti fóstureyðingar þurfti að leggja inn umsókn og voru aðstæður hennar metnar af lækni og félagsráðgjafa hverju sinni. Þetta breyttist með löggjöf árið 2019. Þá fengu konur sjálfsákvörðunarrétt í eigin þungun, tímaramminn var lengdur fram að lokum 22. viku og heiti aðgerðarinnar var breytt úr fóstureyðingu í þungunarrof. Í mars 1975 voru stofnuð baráttusamtök fyrir sjálfsákvörðunarrétti kvenna til löglegrar fóstureyðingar. Skjalasafn samtakana er varðveitt á Kvennasögusafni.
*spurningu svarað í september 2011, svar uppfært 4. september 2019

Hvenær urðu konur myndugar?

Ógiftar konur urðu myndugar (sjálfráða og fjárráða) á Íslandi árið 1861 en giftar konur árið 1900.
*spurningu svarað í maí 2011

Hvenær fengu karlmenn fæðingarorlof?

Þegar þriggja mánaða fæðingarorlof til allra kvenna var samþykkt árið 1975 fylgdu ákvæði um að faðirinn gæti tekið einn mánuð með samþykki móður. Með endurskoðun laganna 1989 varð foreldraorlofið 6 mánuðir hvaraf einn mánuður var festur móðurinni en foreldrar gátu skipt hinum að vild milli sín. Árið 2000 var svo komið á fæðingar- og foreldraorlofi þar sem feður fengu sjálfstæðan rétt og stofnaður fæðingarorlofssjóður.
*spurningu svarað í september 2010

Hvaðan kemur kvennabaráttutáknið hnefi í kventákninu?

Kvennabaráttutáknið með krepptan hnefa innan í kvennamerkinu leit dagsins ljós í lok 7. áratugarins. Það var mikið notað í kvennahreyfingum um allan heim á 8. áratugnum og íslenskar rauðsokkur tóku það upp á sína arma. Merkið prýddi m.a. fyrstu forsíðu blaðs þeirra, Forvitin rauð. Kreppti hnefinn er tákn sem verkalýðshreyfingin hafði lengi notað og nýja kvennahreyfingin vildi með þessu sýna samstöðu með hinum alþjóðlega, sósíalíska málstað. Hringurinn með krossinum undir er hins vegar gamalt kventákn. Það notuðu alkemistar á miðöldum til að tákna efnið kopar, sem þeir kölluðu Venus. En merkingin hefur breyst í tímans rás og táknar nú konu. Ameríska baráttukonan Jo Freeman teiknaði merkið ásamt manni sínum til nota á barmmerki við mótmæli við fegurðarsamkeppnina Miss America árið 1969. Upprunalega litasamsetningin var blóðrautt á hvítum grunni - og átti rauði liturinn að vísa til tíðablóðs. Þetta og fleira um barmmerki kvennahreyfinganna má lesa á heimasíðu Jo Freeman. Landsbókasafn Íslands-Háskólabókasafn og bókasafn Listaháskólans eiga bókina Suffragettes to she-devils : women's liberation and beyond  eftir Liz McQuiston sem rekur sögu veggspjalda og barmmerkja kvennahreyfinga allt frá 19. öld til okkar daga með miklu myndefni. Formála ritaði Germaine Greer.
*spurningu svarað í september 2010

Brenndu rauðsokkur brjóstahaldara?

Ekki á Íslandi (a.m.k. ekki opinberlega), en það gerðist í einni fyrstu aðgerð dönsku rauðsokkanna vorið 1970 að nokkrar þeirra brenndu brjóstahaldara sem tákn kvennakúgunar.
*spurningu svarað í september 2010

Hver var fyrsti kvenráðherrann á Íslandi?

Auður Auðuns varð fyrst kvenna ráðherra á Íslandi er hún var skipuð dóms- og kirkjumálaráðherra árið 1970. Hún gegndi embættinu í eitt ár. Sjá nánar um konur í ráðherraembættum á vef Alþingis.
*spurningu svarað í september 2010

Hvar á Norðurlöndunum fengu konur fyrst kosningarétt?

Konur í Finnlandi fengu fyrstar allar kvenna á Norðurlöndunum kosningarétt, en það var árið 1906. Konur í Noregi sem greiddu skatt fengu konsningarétt árið 1907 en allar konur árið 1913. Í Danmörku fengu konur kosningarétt árið 1915. Konur á Íslandi sem voru 40 ára og eldri fengu kosningarétt árið 1915 en allar konur árið 1920. Konur í Svíþjóð ráku svo lestina árið 1921.
*spurningu svarað í september 2010

Hvað er CEDAW?

CEDAW stendur fyrir: “The Convention on the Elimination of All Forms of Discrimination against Women”. Sáttmálinn var samþykktur hjá Sameinuðu þjóðunum árið 1979. Markmið hans er að berjast gegn hvers kyns mismunun gegn konum. Ríkin sem samþykkja sáttmálann skuldbinda sig til þess að koma sér upp lögum, reglum og öðru sem til þarf til þess að stöðva mismunun gegn konum. CEDAW er sá sáttmáli S.Þ. sem flestar af aðildarþjóðunum hafa lögfest, en einnig sá sáttmáli sem hvað flest lönd hafa haft sitthvað við að athuga. Ísland fullgilti sáttmálann árið 1985 og hann bindur því hendur stjórnvalda en nær ekki til einkageirans. Fjórða hvert ár hið minnsta skulu ríkin leggja fram skýrslu fyrir eftirlitsnefnd, svokallaða CEDAW-nefnd. Nefndin gerði síðast athugasemdir við gang mála á Íslandi í júlí 2008.
Hægt er að lesa sáttmálanna sjálfan og finna skýrslur landanna ásamt athugasemdum nefndarinnar á heimasíðu CEDAW-nefndarinnar.
*spurningu svarað í ágúst 2010

Hvenær var Kvenréttindafélag Íslands stofnað?

Kvenréttindafélag Íslands (KRFÍ) var stofnað af Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og fleiri baráttukonum 27. janúar 1907 á heimili Bríetar að Þingholtsstræti 18. Nánar má lesa um Kvenréttindafélagið í bók Sigríðar Th. Erlendsdóttur, Veröld sem ég vil, sem Kvenréttindafélagið gaf út árið 1993. Einkaskjalasafn KRFÍ er varðveitt á Kvennasögusafni.
*spurningu svarað í júlí 2010