1912-1918 í bæjarstjórn Reykjavíkur
*8.1. 1880 að Valþjófsstað í Fljótsdal †20.8. 1930
Foreldrar: sr. Lárus Halldórsson og kona hans Kirstín Katrín Guðjohnsen.
~ 1902 Sigurbirni Ástvaldi Gíslasyni, cand. theol., kennara og rithöfundi
Guðrún var þriðja í aldursröð sex systkina, en tvö elstu börnin létust í bernsku. Árið 1885 flutti fjölskyldan til Reyðarfjarðar þar sem faðir Guðrúnar gerðist prestur fríkirkjusafnaðarins. Hugur Guðrúnar hneigðist snemma til ritstarfa og um fermingu tók hún að gefa út handskrifað blað sem gekk milli bæjanna í sveitinni. Hún ritaði um bindindismál, kvenfrelsi og réttindamál almennt. Fyrir uppörvun frá föður sínum tók Guðrún að þýða úr erlendum málum og munu fyrstu sögur þýddar af henni hafa birst í blaðinu Framsókn sem mæðgurnar Sigríður Þorsteinsdóttir og Ingibjörg Skaptadóttir gáfu út á Seyðisfirði skömmu fyrir aldamót. Trúmál urðu Guðrúnu snemma ofarlega í huga. Haft er eftir henni frá unglingsárum að hún vildi hafa fæðst piltur svo hún hefði getað orðið prestur. Lög heimiluðu hins vegar ekki slíka menntun ungra stúlkna.
Fjölskylda Guðrúnar flutti til Reykjavíkur árið 1899 en þá var Guðrún tæplega tvítug. Þar kynntist hún mannsefni sínu, Sigurbirni Á. Gíslasyni, og gengu þau í hjónaband árið 1902. Bjuggu þau fyrsta misserið í Þingholtsstræti 3 og síðan í húsinu númer 11 við sömu götu, en frá árinu 1906 að Ási á Sólvöllum og við það hús voru þau oftast kennd. (Húsið stendur enn og er á mótum Sólvallagötu og Hofsvallagötu.) Þeim varð tíu barna auðið, en þrjú þeirra létust á barnsaldri. Guðrún var mjög virk í ýmsum félagasamtökum. Hún átti um árabil sæti í stjórn Barnavinafélagsins Sumargjafar, í stjórn Kristilegs félags ungra kvenna (KFUK) og formaður frá 1928 til æviloka og hún var einn af stofnendum Trúboðsfélags kvenna og formaður þess fyrstu árin. Hún var hvatamaður að stofnun Húsmæðrafélags Reykjavíkur 1935 og fyrsti formaður þess (lagt niður 2005). Guðrún var einnig mikilvirkur rithöfundur, en fyrsta frumsamda rit hennar, Ljós og skuggar kom út í þremur heftum árin 1903-1905.
Guðrún Lárusdóttir var kjörin í bæjarstjórn Reykjavíkur af kvennalista árið 1912 og sat óslitið til ársins 1918. Þann tíma var hún í skólanefnd og einnig fátækrafulltrúi þau árin og áfram til ársins 1922. Árið 1930 var hún skipuð fátækrafulltrúi í Reykjavík og gegndi því starfi til dauðadags.
Árið 1930 var Guðrún Lárusdóttir kjörin á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Kjörtímabil fyrstu konunnar sem kjörin var til Alþingis, Ingibjargar H. Bjarnasonar, var á enda og hún gaf ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu. Guðrún var því önnur kona hér á landi sem kosin var til starfa á Alþingi. Á Alþingi beitti hún sér einkum fyrir brautargengi ýmissa mannúðarmála, svo sem stofnun uppeldisheimilis fyrir vangæf börn og unglinga, stofnun fávitahælis og drykkjumannaheimilis. Þessi mál hlutu ekki framgang á þingi og kom þar margt til, en einkum að þetta voru ekki dæmigerð þingmál á þeim tíma og hún tilheyrði lengst sinnar þingsetu flokki sem ekki átti aðild að stjórnarsamstarfi.
Heimild:
Björg Einarsdóttir: Úr ævi og starfi íslenskra kvenna. II. bindi. Bókrún. Bls. 350-371. Ljósmynd t.d. á bls. 350.
Stafræn útgáfa © Útgáfuréttur 2008 Kvennasögusafn Íslands