Guðrún Björnsdóttir bæjarstjórn

Guðrún Björnsdóttir 1853-1936

1908-1914 í bæjarstjórn Reykjavíkur


*27.11. 1853 að Eyjólfsstöðum á Völlum †11.9. 1936 í Reykjavík 

Foreldrar: Björn Skúlason, umboðsmaður og bóndi, og kona hans Bergljót Sigurðardóttir.

~ 1884 Lárusi Jóhannessyni, presti


Guðrún Björnsdóttir fæddist að Eyjólfsstöðum á Völlum árið 1853 og ólst þar upp til 10 ára aldurs er faðir hennar féll frá. Fór hún þá til Eskifjarðar í fóstur og nokkrum árum síðar til móðurbróður síns á Langanesi. Þaðan sigldi hún til Kaupmannahafnar og var þar um skeið en kom síðan til baka til frændfólks síns á Langanesi. Hún gekk að eiga sr. Lárus Jóhannesson árið 1884 og bjuggu þau að Sauðanesi á Langanesi. Þau eignuðust fjórar dætur, Margréti Ragnheiði Friðriku, f. 1885, Bergljótu, f. 1886, Guðrúnu Ingibjörgu, f. 1887, og Láru Ingibjörgu, f. 1888. Guðrún varð ekkja eftir aðeins fjögurra ára hjónaband og dvaldist hjá bróður sínum að Presthólum í N-Þingeyjarsýslu uns hún flutti með dætrum sínum til Reykjavíkur árið 1900. Hóf hún þar mjólkursölu og rak hana af miklum dugnaði. Reit hún í blöð um mjólkursölumálin og sýndi meðal annars fram á nauðsyn þess að koma öðru og betra skipulagi á þau til tryggingar hreinlæti og heilbrigði bæjarbúa. 

Guðrún Björnsdóttir var einn stofnenda Kvenréttindafélags Íslands. Hún sat í bæjarstjórn fyrir kvennalista 1908-1914.



Heimildir:
Björg Einarsdóttir: Úr ævi og starfi íslenskra kvenna. I. bindi. Bókrún. Bls. 166-168. Ljósmynd á bls. 152.
Morgunblaðið, 13, sept. 1936, bls. 1.

Stafræn útgáfa © Útgáfuréttur 2008 Kvennasögusafn Íslands