Anna Sigurðardóttir fæddist á Hvítárbakka í Borgarfirði 5. desember árið 1908. Hún ólst þar upp til tólf ára aldurs en fluttist þá ásamt fjölskyldu sinni til Reykjavíkur. Anna naut hefðbundinnar barnafræðslu í æsku, gekk síðar í Kvennaskólann í Reykjavík og dvaldi eitt ár í Þýskalandi. Árið 1938 giftist hún Skúla Þorsteinssyni og eignuðust þau þrjú börn. Anna hóf bein afskipti af kvenréttindamálum á fimmta áratugnum og gekk í Kvenréttindafélag Íslands árið 1947. Á Eskifirði, þar sem hún bjó 1939-1957, stóð Anna fyrir stofnun Kvenréttindafélags Eskifjarðar árið 1950. Hún skrifaði á þessum tíma fjölda greina í blöð og tímarit og vakti athygli á ýmsum réttindamálum kvenna. Síðar vann hún útvarpsþætti þar sem hún fléttaði saman kvennasögu og kvenréttindum og beindi sjónum fólks að stöðu kvenna í fortíð og nútíð.
Um 1950 hóf Anna að safna saman öllu því sem rak á fjörur hennar og snerti sögu kvenna að fornu og nýju. Á þann hátt eignaðist hún stórt safn bóka, tímarita og handrita um og eftir konur.
Í gegnum störf sín fyrir Kvenréttindafélag Íslands komst Anna í persónuleg kynni við fjölda erlendra kvenréttindakvenna og fylgdist vel með baráttu þeirra. Árið 1968 sat hún fund norrænna kvenréttindafélaga á Þingvöllum og heyrði þar fyrirlestur um kvennasögurannsóknir og kvennasögusafnið í Gautaborg. Fyrirlesturinn var hugljómun fyrir Önnu. Vann hún að því næstu árin, ásamt fleirum, að koma á fót kvennasögusafni hér á landi. Sá draumur varð að veruleika 1. janúar 1975 þegar Kvennasögusafn Íslands var formlega opnað á heimili Önnu að Hjarðarhaga 26 í Reykjavík. Anna lagði til allt það efni sem hún hafði safnað í áratugi. Kvennasögusafn Íslands var á heimili Önnu þar til hún lést 3. janúar 1996. Þá hafði safnið fyrir löngu fyllt íbúðina og tilvera þess og störf Önnu orðið fjölmörgum hvatning til rannsókna á sögu kvenna. Auk greina í blöð og tímarit, útvarpsþátta og erinda á fundum og ráðstefnum gaf Anna út tvö grundvallarrit í kvennasögu. Það eru Vinna kvenna á Íslandi í 1100 ár (1985) og Allt hafði annan róm áður í páfadóm. Nunnuklaustrin tvö á Íslandi á miðöldum og brot úr kristnisögu (1988). Auk þess átti Anna viðamikla ritgerð um barnsburð og barnsfæðingar í ritinu Ljósmæður á Íslandi (1984). Þá tók hún saman Ártöl og áfanga í sögu íslenskra kvenna 1746-1975 (1976). Anna hlaut fjölda viðurkenninga fyrir störf sín í þágu kvenréttinda og rannsókna í kvennasögu. Hún var heiðursfélagi Kvenréttindafélags Íslands, Kvenfélagasambands Íslands, Bókavarðafélags Íslands, Sagnfræðingafélags Íslands, hlaut riddarakross fálkaorðunnar árið 1978 og varð fyrst íslenskra kvenna heiðursdoktor við Háskóla Íslands árið 1986.
Viðtal við Önnu Sigurðardóttur á heimili hennar í tilefni af opnun Kvennasögusafns í janúar 1975.
---
Um ævi Önnu og upphaf Kvennasögusafns:
Skjalasafn Önnu er varðveitt á Kvennasögusafni, sjá skjalaskrá.