1908-1910 í bæjarstjórn Reykjavíkur
*12.6. 1850 að Ketilsstöðum á Völlum í S-Múlasýslu, †18.4. 1922 í Reykjavík
Foreldrar: Pétur Havstein, sýslumaður og amtmaður, og 1. kona hans Guðrún Hannesdóttir Stephensen
~ 1871 Jónasi Jónassen, lækni við Sjúkrahúsið í Reykjavík, landlæknir frá 1895
Þórunn missti móður sína er hún var aðeins 10 mánaða gömul og ólst upp til fermingjar ýmist hjá nákomnum ættingjum eða föður sínum. Skömmu eftir fermingu fór Þórunn til námsdvalar í Kaupmannahöfn og gekk m.a. á skóla fröken Nathalie Zahle, en hann var í miklu áliti í Danmörku og fröken Zahle minil kvenréttindakona sem vann að því að tengja saman menntun kvenna og réttindabaráttu þeirra. Frá Kaupmannahöfn kom Þórunn til Reykjavíkur og þar giftist hún Jónasi Jónassen árið 1871, þá 21 árs gömul. Heimili þeirra var lengst af í Lækjargötu 8, á horni Skólabrúar og Lækjargötu og stendur það hús að mestu með sama sniði að ytra útliti. Hjónin eignuðust eina dóttur árið 1873, Soffíu.
Þórunn var kjörin fyrsti formaður Thorvaldsensfélagsins sem stofnað var árið 1875 og starfar enn í dag og er elsta félag kvenna í Reykjavík og með elstu kvenfélögum landsins. Tilgangur þess var m.a. að vinna að almenningsheill og styrkja þá er við erfiðleika búa. Þórunn var formaður félagsins til æviloka, eða í 47 ár. Hún var ritari í Landspítalasjóðanefndinni, en með byggingu spítalans vildu íslenskar konur minnast þeirra tímamóta er varð 19. júní 1915 er þær öðluðust kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Þórunn gaf sig að ýmsum öðrum félagsmálum í Reykjavík og í bæjarstjórn átti hún sæti 1908-1910.
Heimild:
Björg Einarsdóttir: Úr ævi og starfi íslenskra kvenna. I. bindi. Bókrún. Bls. 158-166. Ljósmynd á bls. 152.
Stafræn útgáfa © Útgáfuréttur 2008 Kvennasögusafn Íslands