May 2, 2024

KATRÍN málsvari mæðra - Erindi Sigurrósar Þorgrímsdóttur og afhending skjalasafns Katrínar Pálsdóttur


Þriðjudaginn 7. maí kl. 12:00 mun Sigurrós Þorgrímsdóttir fjalla um bók sína „KATRÍN málsvari mæðra“ í fyrirlestrarsal Landsbókasafns. Í framhaldinu mun Sigurrós gefa Kvennasögusafni sendibréf, ræður, minnisblöð og önnur skjöl Katrínar, ömmu sinnar, til framtíðar varðveislu.

Verið öll hjartanlega velkomin!
---
Katrín Pálsdóttir (1889–1952) missti eiginmann sinn árið 1925 frá níu börnum og vilji yfirvalda stóð til þess að koma börnunum fyrir sem hreppsómögum austur í Landsveit. Eftir að hafa unnið þá orrustu að halda fjölskyldunni varð Katrín einörð baráttukona fyrir réttindum og kjörum mæðra sem stóðu í svipuðum sporum.

Katrín lagði allan sinn metnað í að starfa að baráttumálum mæðra og kvenna innan kvennahreyfinga, m.a. í Mæðrastyrksnefnd og Mæðrafélaginu. Hún var varabæjarfulltrúi í Reykjavík árið 1938 og síðan bæjarfulltrúi Sósíalistaflokksins árið 1942. Hún starfaði í bæjarstjórn til ársins 1950 er hún lét af störfum vegna veikinda. Á þeim vettvangi var hún óþreytandi við að leggja fram tillögur og ræða málefni er snertu fjölskylduna, sér í lagi mæður og börn.

Sigurrós Þorgrímsdóttir er fyrrum bæjarfulltrúi og alþingismaður. Hún hefur um árabil unnið úr gögnum Katrínar ömmu sinnar og er bókin „KATRÍN málsvari mæðra“ glæsileg útkoma þeirrar vinnu þar sem rakin er saga baráttukonu sem hafði jöfnuð manna að leiðarljósi.

Rakel Adolphsdóttir, fagstjóri Kvennasögusafns, stjórnar umræðum og tekur við skjölunum.

Katrin_Kapa.jpg