Selma 100 ára minning

Sýning á efni tengdu doktorsritgerð Selmu Jónsdóttur opnaði í Þjóðarbókhlöðunni þann 22. ágúst 2017. 

Selma Jónsdóttir sýningarspjald

Selma - sérvefur.

Myndband um sýninguna.

Texti úr sýningaskrá

Selma Jónsdóttir (22. ágúst 1917 – 5. júlí 1987) var fyrsti Íslendingurinn til að ljúka prófi í listfræði og fyrsta konan sem hlaut doktorsnafnbót frá Háskóla Íslands.

Selma fæddist í Borgarnesi 22. ágúst 1917 og var yngsta barn þeirra Helgu Maríu Björnsdóttur og Jóns Björnssonar. Hún fór til Reykjavíkur til þess að læra við Verzlunarskóla Íslands og lauk þaðan prófi árið 1935. Því næst hélt hún út til Þýskalands þar sem hún lærði þýsku og þýskar bókmenntir í Ham borg og Heidelberg. Hún sneri aftur til Íslands árið 1937 og vann í verslun foreldra sinna í Borgarfirði.

Selma stefndi á háskólanám erlendis og fór til Bandaríkjanna árið 1941. Þremur árum síðar lauk hún B.A.­prófi í listfræði frá Columbia háskóla í New York. Þá stundaði Selma framhaldsnám við sama skóla 1944–1945 og við Warburg Institute í London 1946–1948. Hún lauk M.A.­prófi árið 1949. Meistaraprófsritgerð Selmu vakti mikla athygli, bæði hér á landi sem og erlendis, og birtist ritgerðin í tímaritinu The Art Bulletin í september 1950.

Sérsvið Selmu var miðaldalist og á því sviði vann hún mikið brautryðjenda verk. Selma varði doktorsritgerð sína við Háskóla Íslands þann 16. janúar 1960. Í ritgerðinni sýndi hún fram á að útskornar fjalir úr Flatatungu hefðu upprunalega verið hluti af dómsdagsmynd í býsönsk um stíl frá miðöldum. Almenna bókafélagið gaf ritgerðina út, bæði á íslensku og ensku.

Selma tók við Listasafni Íslands árið 1950 þegar það hafði aðsetur sitt á efstu hæð Þjóðminjasafnsins og var eini fastráðni starfsmaður þess í 17 ár. Hún átti ríkan þátt í uppbyggingu safnsins og veitti því forstöðu til æviloka. Selma vann ötullega að því að fá sérhúsnæði fyrir Listasafn Íslands en lést skömmu áður en safnið opnaði formlega við Tjörnina í Reykjavík. Selma lést 5. júlí 1987 en Listasafn Íslands opnað dyr sínar við Fríkirkjuveg 7 þann 30. janúar 1988.

Skjalasafn Selmu er varðveitt á Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar og inniheldur meðal annars vinnugögn hennar og bréfasafn.

Eftirtaldir aðilar hafa samstarf um að minnast Dr. Selmu á afmælisárinu: Kvennasögusafn Íslands, Landsbókasafn Íslands–Háskólabókasafn, Listasafn Íslands, Listfræðafélag Íslands, Safnahús Borgarfjarðar og Þjóðminjasafni Íslands

Texti: Rakel Adolphsdóttir. Ágúst 2017.