Merki Kvennasögusafns

Kvendoktorar

Íslenskir kvendoktorar

1926-2015

Hvað viltu vita?

Spurt og svarað

Hvenær gerðist það?

Ártöl og áfangar í kvennasögu

Kvennasöguslóðir

Gönguferðir um

Reykjavík

Úur

Úur- ungar konur í  Kvenréttindafélagi Íslands

Kvenréttindafélag Íslands gekk í Alþjóðasamtök kvenréttindafélaga (International Alliance of Women) árið 1911. Æskunefnd var stofnuð hjá alþjóðasamtökunum 1967 og var lagt til að hún beindi sjónum einkum að menntun telpna og ungra stúlkna. Á fyrri hluta árs 1968 kom Kvenréttindafélag Íslands upp æskunefnd vegna tilmæla alþjóðasamtakanna um að aðildarfélög stofnuðu slíka nefnd í sínum heimalöndum. Kvenréttindafélagið kaus nefndinni einnig formann, Hlédísi Guðmundsdóttur. Í nefndina máttu ganga allar félagskonur 35 ára og yngri. Í nóvember 1969 voru 18 ungar konur skráðar í nefndina svo ekki var hún fjölmenn. Rauðsokkahreyfingin kom fram síðla árs 1970 en ungu konurnar hjá KRFÍ kusu flestar að starfa þar áfram. Þær sendu frá sér yfirlýsingu frá fundi sínum 18. nóvember 1970 þess efnis að hér eftir kæmu þær fram undir starfsheitinu Úur, en hugmyndina að nafninu átti Steinunn Finnbogadóttir, ein félagskvenna KRFÍ. Nafnið er sótt til persónu í bók Halldórs Laxness Kristnihald undir Jökli sem kom út 1968.

Úur komu saman sumarið 1993 til að rifja upp gömul kynni. Aftri röð frá vinstri: Ragna Ólafsdóttir aðstoðarskólastjóri, Guðrún Sæmundsdóttir skrifstofumaður, Silja Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur, Katrín Fjeldsted læknir, Þórdís Árnadóttir skrifstofustjóri, Ásta Björt Thoroddsen tannlæknir, María Jóhanna Lárusdóttir kennari, Edda Svavarsdóttir markaðsstjóri og Gullveig Sæmundsdóttir ritstjóri. Fremri röð: Guðfinna Ragnarsdóttir menntaskólakennari, Sigurbjörg Aðalsteinsdóttir skrifstofustjóri og Ásdís Skúladóttir leikstjóri.

Úurnar voru margar hverjar kennarar og kynntust bæði launamisrétti á vinnustöðum sínum og blöskraði þá sýn á konur sem íslenskar kennslubækur veittu. Fyrstu opinberu afskipti þeirra voru af ,,Kvennaskólamálinu" árið 1970. Þær tóku þátt í að skipuleggja undirskriftasöfnun með mótmælum við frumvarpi þess efnis að Kvennaskólinn mætti útskrifa stúdenta. Mörgum þótti sem andi frumvarpsins væri sá að stefnt væri að stofnun einhvers konar stúlknamenntaskóla sem yrði þá lægra metinn. Málið varð mikið hitamál og lyktaði með því að frumvarpið var dregið til baka. Piltar fengu hins vegar aðgang að skólanum árið 1971 og árið 1979 varð Kvennaskólinn að almennum menntaskóla.

Nokkrar Úanna tóku hluta af lestrar- og reikningsbókum sem kenndar voru í skólum landsins og gerðu könnun á því hvernig staða kynjanna birtist í þeim. Sömuleiðis gerðu Úur úttekt á handavinnu drengja og stúlkna, sem þá var mjög kynjaskipt, og könnun á boðskap barnabóka. Niðurstöðurnar vöktu mikla athygli og vöktu marga til vitundar um þá kynjainnrætingu sem átti sér stað í skólum landsins og í öllu uppeldisstarfi. Úur höfðu erindi sem erfiði. Í nýjum grunnskólalögum árið 1973 var tekið á þessum málum, m.a. þannig að handavinnukennsla varð ókynbundin og kennslubókahöfundar gæta framsetningar.

Þegar Úur tóku til starfa hafði Rauðsokkahreyfingin ekki verið stofnuð, en þegar það varð buðu Úur Vilborgu Dagbjartsdóttur, valinkunnri Rauðsokku, að kynna hreyfinguna á fundi sínum. Þótt viðurkennt væri að báðir hópar ættu margt sameiginlegt kusu Úur að starfa áfram eins og þær höfðu áður gert. Þótt starf Rauðsokkahreyfingarinnar hafi orðið meira áberandi má ekki gleyma hinu að Úur starfa enn, hver á sínum vettvangi.