Merki Kvennasögusafns

Kvendoktorar

Íslenskir kvendoktorar

1926-2015

Hvað viltu vita?

Spurt og svarað

Hvenær gerðist það?

Ártöl og áfangar í kvennasögu

Kvennasöguslóðir

Gönguferðir um

Reykjavík

Kvennasöguslóðir um Þingholtin

Samantekt: Auður Styrkársdóttir, forstöðumaður Kvennasögusafns Íslands (2001-2016) tók saman árið 2006.

Kvennaskólinn í Reykjavík (Fríkirkjuvegur 9)
Stofnaður árið 1874 en starfræktur frá árinu 1909 í þessu húsi sem var byggt sérstaklega fyrir hann og er meðal fyrstu steinhúsa hérlendis. Þóra Melsted (1823-1919) stofnaði kvennaskóla 1874 á heimili hennar og Páls Melsted að Thorvaldsensstræti 2 og byggðu þau hjón nýtt hús undir starfsemina og heimili sitt á grunni gamla hússins 1878. Þóra hafði kennt við skóla fyrir stúlkur í Reykjavík sem systir hennar Ágústa stóð fyrir 1851-53 í Dillonshúsi við Suðurgötu (nú á Árbæjarsafni). Fram til 1904 áttu íslenskar stúlkur engan raunhæfan kost á framhaldsmenntun utan kvennaskóla.
Lítil stytta er fyrir framan skólahúsið og er það Stúlka eftir Ólöfu Pálsdóttur. Innan dyra skólans gengur styttan undir nafninu Soffía.

Barnaskólinn (Fríkirkjuvegur 1)
Byggður 1898. Konur urðu fljótt margar í kennaraliði skólans og 1919 var komið á launajafnrétti kennara og kennslukvenna. Konurnar sem kjörnar voru í bæjarstjórn af kvennalista 1908 létu sér annt um heilsufar skólabarna. Þær komu því m.a. til leiðar að 1909 var byrjað að gefa fátækum börnum mat í skólanum, að skólinn var þveginn daglega og að ráðinn var fastur læknir til að fylgjast með heilsu skólabarna.

Menntaskólinn í Reykjavík (Lækjargata) Skólahúsið var reist árið 1846. Stúlkur höfðu ekki aðgang að skólanum fyrr en 1904, en máttu taka próf frá árinu 1886. Ólafía Jóhannsdóttir lauk 4. bekkjar prófi utanskóla árið 1890. Laufey Valdimarsdóttir, dóttir Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, settist hér á skólabekk fyrst kvenna árið 1904 og lauk stúdentsprófi árið 1910. Áður hafði Elínborg Jacobsen tekið stúdentspróf utanskóla. Camilla Torfason lauk stúdentsprófi í Kaupmannahöfn 1889 og Björg Karitas Þorláksdóttir 1901, en í Danmörku fengu stúlkur aðgang að æðri menntastofnunum þegar árið 1875. Stúlkur voru í minnihluta stúdenta fram til 1970 en eftir 1979 hafa þær verið í meirihluta.

Amtmannsstígur 5
Vefnaðarvöruverslun Gunnþórunnar Halldórsdóttur (1872-1959) leikkonu og Guðrúnar Jónasson (1877-1958) frá 1905 um langt skeið. Guðrún og Gunnþórunn héldu hér heimili saman og ólu upp þrjú fósturbörn. Báðar voru félagar í KRFÍ nær frá upphafi.
Gunnþórunn reisti neðri hæð hússins ásamt móður sinni Helgu Jónsdóttur er tók kostgangara eftir að maður hennar, Halldór söðlasmiður Jónatansson, dó en þá var Gunnþórunn barn að aldri. Eftir að Guðrún Jónasson flutti til þeirra létu þær stækka húsið um eina hæð. Gunnþórunn var mikilvirk og afar vinsæl leikkona í Reykjavík.
Guðrún Jónasson var formaður KRFÍ 1911-12. Hún sat í bæjarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1928-46 og sat í barnaverndarnefnd, framfærslunefnd og brunamálanefnd. Hún var einn stofnenda og fyrsti formaður Hvatar, félags Sjálfstæðiskvenna í Reykjavík, 1937, og hafði hana á hendi til 1954. Hún var formaður kvennadeildar Slysavarnarfélags Íslands frá 1930 til dauðadags.
Síðar var hér Blómaverslun frú Sigríðar Jenssonar um árabil (sjá ennfremur Þingholtsstræti 27).

Þingholtsstræti 9
Guðrún Daníelsdóttir (1870-1945).
For.: Daníel Símonarson söðlasmiður í Reykjavík og Sigríður Jónsdóttir. Ógift og barnlaus. Kvsk. Rvík, pr. 1887. Kpr. Flb. 1900. Kennarahásk. Khöfn 1903-04. Kennaranámsk. Hindsgavl., Danmörk, 1923. Hafði heimaskóla í Rvík 1889-98. Heimiliskennari. á Grenjaðarstöðum, S.-Þing., 1900-01, kenn. bsk. Rvík 1901-35. Kenndi síðan meira og minna heima hjá sér. Kenndi að leika á gítar. Einn stofnenda Kvenréttindafélags Íslands.

Þingholtsstræti 9 –Bríetarbrekka
Ríkisstjórnin fól Kvennasögusafni Íslands árið 2004 að sjá til þess að Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og íslenskri kvennabaráttu yrði reistur minnisvarði. Að ákvörðun Reykjavíkurborgar sem studdi verkefnið dyggilega stendur hér minningarreitur um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og íslenska kvennabaráttu. Ólöf Nordal var fengin til þess að útbúa reitinn sem var afhjúpaður 7. nóvember 2007 (Þess má geta að Ólöf er afkomandi Sigríðar Hjaltadóttur Jensson - sjá Þingholtsstræti 27).
Minnisvarðinn er laut með hringlaga granítplötu í miðju, „forum“ eða torg að rómverskri fyrirmynd, að sögn listakonunnar í frásögn Morgunblaðsins 8. nóvember 2007. Hægt sé að ræða málin á þessu torgi, og þá helst kvenfrelsi og réttindabaráttu. Torgið verndar grösugar hæðir, „kvenlegir barmar“, eins og Ólöf kallar þær og hægt er að tylla sér á bekki við torgið. Í því miðju er blómamunstur í gráum og rauðum litum, eftirgerð munsturs sem Ólöf sá á veggklæði sem Bríet gaf dóttur sinni Laufeyju Valdimarsdóttur. Barnabarn Bríetar og vinkona Ólafar, Laufey Sigurðardóttir, á nú þetta klæði. Utan um munstrið hringast vísa eftir Bríeti, einnig fengin af klæðinu. Skilaboð frá baráttukonu til dóttur sinnar og hvatningarorð til allra kvenna um leið: „Stígðu ófeimin stúlka upp og stýrðu klæði, yfir geiminn yfir græði, allan heiminn skoða í næði.“

Þingholtsstræti 13
Jórunn Ragnheiður Guðmundsdóttir (1856-1916).
Handavinnukennari við Kvennaskólann í Rvk. 1888-91. Fór til Kaupmannahafnar á fimmtugsaldri til að læra fatasaum og kenndi síðan saumaskap og rak verslun með saumavörur við Laugaveg. Einn stofnenda Kvenréttindafélags Íslands. Meðlimur í Hvítabandinu.

Þingholtsstræti14
Margrét Stefánsdóttir (1873-1940).
For.: Stefán Magnússon og Ingibjörg Magnúsdóttir. Ógift. Hún ól upp fósturson.
Kvennask. Ytri-Ey 1894-95. Nám (kjóla- og karlmannafatasaum o.fl.) í Rvík 1896-97. Námsdvöl í Khöfn (saumar, matreiðsla) 1905-06. Kennari í Undirfellssókn í Vatnsdal 1897-1900 (einnig í Blönduóssókn 1987-98 og Bólstaðarhlíðarsókn 1899-1900). Kenn. við kvennaskólann á Blönduósi 1907-10. Kenndi börnum í Staðarsveit eftir 1919. Margrét var einn stofnenda Kvenréttindafélags Íslands.

Þingholtsstræti 15
Jónína Jónatansdóttir (1869-1946).
For.: Jónatan Gíslason og Margrét Ólafsdóttir. Maki: Flosi Sigurðsson trésmiður. Þau ólu upp fósturson. Jónína og Flosi bjuggu hér fram til 1916 en fluttu þá í Lækjargötu 12.
     Jónína missti ung föður sinn og réðst í vistir eftir fermingu þar til hún giftist. Hún gerðist félagi í Kvenréttindafélagi Íslands skömmu eftir stofnun þess og var jafnframt virk í Góðtemplarareglunni. Jónína var hvatakona að stofnun Verkakvennafélagsins Framsóknar 1914 og formaður þess frá stofnun til 1934. Hún var einnig einn af stofnendum Alþýðuflokksins og Alþýðusambands Íslands. Jónína sat í bæjarstjórn fyrir Alþýðuflokkinn 1920-22.

Þingholtsstræti 16
Guðrún Björnsdóttir (1853-1936).
For.: Björn Skúlason, bóndi á Presthólum, og Bergljót Sigurðardóttir. Maki: sr. Lárus Jóhannesson. Þau eignuðust fjórar dætur.
   Guðrún hóf mjólkursölu í Reykjavík árið 1900 og rak hana af miklum dugnaði. Hún var einn stofnenda Kvenréttindafélags Íslands og kjörin af kvennalista í bæjarstjórn Reykjavíkur 1908 og sat þar til 1914.

Þingholtsstræti 17
Þórunn Pálsdóttir (1877-1966).
Eiginkona Þorsteins Gíslasonar ritstjóra Lögréttu og Óðins. Þau eignuðust sex börn. Þórunn var einn stofnenda Kvenréttindafélags Íslands

Þingholtsstræti 18
Bríet Bjarnhéðinsdóttir (1856-1940).
For.: Bjarnhéðinn Sæmundsson og Kolfinna Snæbjarnardóttir. Maki: Valdimar Ásmundsson ritstjóri. Þau eignuðust tvö börn. Bríet og Valdimar keyptu hús er hér stóð árið 1891 og bjuggu þar síðan. Það hús hefur verið rifið.
     Bríet nam við Kvennaskólann á Laugalandi í Eyjafirði 1880-1881. Hún fékkst við kennslu barna og unglinga í Reykjavík og í S-Þingeyjarsýslu. Árið 1885 birtist grein eftir hana í Fjallkonunni og er fyrsta blaðagrein sem vitað er um eftir íslenska konu. Árið 1887 hélt hún fyrirlestur í Góðtemplarahúsinu í Reykjavík og var það fyrsti fyrirlestur konur á Íslandi. Bríet hóf útgáfu á Kvennablaðinu 1895 og Barnablaðinu 1897 og var ritstjóri beggja.
     Valdimar dó árið 1902 og upp úr því hófst sá kafli í lífi Bríetar sem hennar er minnst fyrir. Hún beitti sér fyrir stofnun Kvenréttindafélags Íslands árið 1907 og gerðist ein helsta talskona kvenréttinda á Íslandi.

Þingholtsstræti 27
Sigríður Hjaltadóttir (Jensson) (1860-1950)
For.: Hjalti O. Thorberg og Guðrún Jóhannesdóttir. Maki: Jón Jensson háyfirdómari. Þau eignuðust fjögur börn. Þau bjuggu í húsi er hér stóð en var síðar flutt og prýðir nú Þingholtsstræti 28.
     Sigríður rak lengi blómaverslun að Amtmannsstíg 5. Hún sat í stjórn Thorvaldsensfélagsins og var einn stofnenda Kvenréttindafélags Íslands.

Þingholtsstræti 34 (Bólstaðarhlíð)
Kristín Vídalín Jacobsen (1864-1943).
For.: Elínborg Kristjánsson og Páll Vídalín (sjá að ofan). Maki: Jón Jacobson landsbókavörður. Þau Kristín og Jón létu reisa þetta hús og fluttu inn í það aldamótaárið 1900.
Kristín stundaði nám í Kvenna-akademíunni í Kaupmannahöfn 1890-92 og mun vera fyrsta íslenska konan sem stundaði nám í málaralist. Eftir heimkomuna nokkru síðar stundaði hún áfram listastarfsemi sína og kenndi einnig dráttlist. Hún lagði málaralistina síðan alveg á hilluna.
Kristín stofnaði ásamt nokkrum konum öðrum Kvenfélagið Hringinn árið 1904 og var hún formaður félagins frá stofnun til 1943. Hún átti hlut í stofnun Bandalags kvenna 1917 og sat um tíma í stjórn.

Laufásvegur 5
Stefanía Guðmundsdóttir (1876-1926) leikkona.
For.: Guðmundur snikkari Jónsson og Anna Stefánsdóttir. Maki: Borgþór Jósefsson bæjargjaldkeri. Þau eignuðust sjö börn.
Stefanía lauk prófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík árið 1893. Hún byrjaði að leika aðeins 16 ára gömul, kom fyrst fram í leikriti sem sýnt var í Gúttó 1893. Stefanía og maður hennar voru bæði meðal stofnenda Leikfélags Reykjavíkur og varð sviðið í Iðnó aðal starfsvettvangur Stefaníu. Hún var félagi í Hinu íslenska kvenfélagi.
     Húsið er með elstu steinhúsum í Reykjavík. Pétur Pétursson biskup gaf dóttur sinni Þóru það í brúðkaupsgjöf er hún gekk að eiga Þorvald Thoroddsen jarðfræðing árið 1887, en Pétur var talinn ríkasti maður landsins. Álmtréð undir gafli hússins gróðursetti Þorvaldur um það leyti sem þau Þóra fluttust í húsið. Borgþór stækkaði húsið, byggði við það sólstofu og ræktaði garð.

Laufásvegur 7 (Þrúðvangur)
Margrét Zoëga (1853-1938).
For.: Tómas Klog. Maki: Einar Zoëga hóteleigandi. Margrét lét reisa húsið árið 1918 og bjó hér ásamt dóttur sinni Valgerði og tengdasyni, Einari Benediktssyni, til ársins 1927. Útidyrahurðin er útskorin af Ríkarði Jónssyni myndhöggvara. Hlyninn við suðurgafl hússins mun Margrét hafa gróðursett á fyrstu árum hússins.
     Margrét var eigandi Hótels Reykjavíkur við Austurvöll. Hún lét kvennabaráttuna til sín taka og tók m.a. þátt í að undirbúa kosningarnar 1908 þegar konur buðu fram sérlista til bæjarstjórnar. Þegar úrslitin voru ráðin sátu konurnar málsverð á Hótel Reykjavík, kalt borð og einn heitan rétt, en hótelið var þá nær nýbyggt.

Laufásvegur 12
Elínborg Kristjánsson (1833-1918).
For.: Sr. Friðrik Eggerz og Arndís Pétursdóttir. Maki 1: Páll Vídalín. Þau eignuðust sex börn. Maki 2: sr. Benedikt Kristjánsson. Elínborg og sr. Benedikt reistu það hús er hér stendur aldamótaárið 1900. Elínborg var félagi í Hinu íslenska kvenfélagi.

Ingólfsstræti 18
Torfhildur Þorsteinsdóttir Hólm (1845-1918).
For.: Sr. Þorsteinn Einarsson og Guðríður Torfadóttir. Maki: Jakob Hólm verslunarstjóri. Þau voru barnlaus.
     Torfhildur flutti 17 ára gömul til Reykjavíkur og dvaldi þar næstu sex ár við bóknám og hannyrðir. Þá sigldi hún til Kaupmannahafnar og hélt áfram námi. Fluttist þá til Reykjavíkur og kenndi þar ungum stúlkum. Torfhildur giftist Jakobi Hólm er hún var 29 ára gömul. Jokob andaðist ári síðar og ári seinna fluttist Torfhildur til Vesturheims og dvaldi í Kanada næstu 13 ári. Þar lærði hún að mála og byrjaði jafnframt að semja skáldsögur og gefa þær út. Síðustu æviárin átti Torfhildur heima að Ingólfsstræti 18 en það hús erfði hún 1910 eftir Ragnhildi systur sína.
Torfhildur var brautryðjandi íslenskra kvenna á ritvellinum. Fyrsta saga hennar, Brynjólfur Sveinsson biskup kom út árið 1882 og vakti þegar mikla athygli. Elding, saga frá 10. öld, kom út 1889; er það veigamesta verk hennar. Jón biskup Vídalín (1892-3) og Jón biskup Arason (1902-8) komu báðar út í Draupni, tímariti sem hún gaf út 1891-1908. Dvöl hét annað tímarit, sem hún gaf út og helgaði bókmenntum. Birti hún í því sögur, frumsamdar og þýddar. Ennfremur gaf hún út Sögur og ævintýri, barnasögur o.fl. Sögur Torfhildar urðu vinsælar af alþýðu manna. Hún fékk skáldastyrk úr landsjóði árið 1891, fyrst kvenna.

Ingólfsstræti 14
Kristín Ólafsdóttir (1889-1971).
For.: Sr. Ólafur Ólafsson og Ingibjörg Pálsdóttir Maki: Vilmundur Jónsson landlæknir. Þau eignuðist þrjú börn.
Kristín lauk stúdentsprófi frá Latínuskólanum 1911 og prófi í læknisfræði frá H.Í. 1917, fyrst kvenna. Hún starfaði á sjúkrahúsum í Danmörku og Svíþjóð 1918-1919. Kristín var starfandi læknir á Ísafirði 1917-1931 og aðstoðarlæknir sjúkrahússlæknis þar, síðan starfandi læknir í Reykjavík. Kenndi heilsufræði við húsmæðraskóla kvenfélagsins Óskar á Ísafirði. Í skólanefnd húsmæðraskólans í Reykjavík 1941-46, í barnaverndarnefnd 1946-52. Kristín samdi nokkur rit um mataræði og heilsufar og þýddi nokkur rit.

Ingólfsstræti 9
Katrín Magnússon (1858-1932).
For.: Skúli Þorvaldsson Sívertsen, bóndi í Hrappsey, og Hlíf Jónsdóttir. Maki: Guðmundur Magnússon, læknir. Þau voru barnlaus.
Katrín aðstoðaði mann sinn við alla uppskurði, smáa og stóra. Hún var formaður Hins íslenska kvenfélags um tíma, sat lengi í stjórn Thorvaldsensfélagsins og var í fyrstu stjórn Bandalags kvenna 1917. Katrín var kjörin af kvennalista í bæjarstjórn Reykjavíkur 1908 og sat þar í átta ár og starfaði þar m.a. í fátækranefnd bæjarins.

Smiðjustígur 6
Anna Sigríður Pjetursson (1845-1921).
For.: Vigfús Thorarensen sýslumaður og Ragheiður Pálsdóttir Melsted. Maki: Pjetur Pjetursson bæjargjaldkeri. Þau eignuðust sex börn.
Lærði píanóleik hjá Olufu Finsen og í Kaupmannahöfn og lauk kennaraprófi í tónlist, fyrst Íslendinga. Hún kenndi hljóðfæraslátt í Reykjavík í hálfa öld. Einnig lærði hún í Kaupmannahöfn að sauma prestakraga og „krúsa“, þ.e. að strauja þá með þar til gerði járni. Hún kenndi hannyrðir við Kvennaskólann í Reykjavík 1874-1875. Anna var í fyrstu stjórnarnefnd Hins íslenska kvenfélags 1894 og ennfremur félagi í Hvítabandinu.

Skólavörðustígur 11 og 11a (nú SPRON)
Þorbjörg Sveinsdóttir (1827-1903).
For.: sr. Sveinn Benediktsson og Kristín Jónsdóttir. Ógift. Ól upp systurdóttur sína, Ólafíu Jóhannsdóttur.
Þorbjörg nam yfirsetufræði í Kaupmannahöfn og útskrifaðist sem ljósmóðir 1856. Hún stundaði síðan ljósmóðurstörf í Reykjavík til ársins 1902 og var embættisljósmóðir frá árinu 1864. Samhliða störfum hafði Þorbjörg á hendi verklega kennslu ljósmóðurnema. Einn stofnenda Hins íslenska kvenfélags og ein fremsta kvenréttindakona sinnar samtíðar. Þorbjörg keypti steinbæ er hér stóð skömmu eftir að hún kom heim frá Kaupmannahöfn en hann var reistur árið 1858. Árið 1896 reisti Þorbjörg tvílyft timburhús á sömu lóð.
Ólafía Jóhannsdóttir (1863-1924).
For.: sr. Jóhann Knútur Benediktsson og Ragnheiður Sveinsdóttir. Ógift og barnlaus.
Nam við Kvennaskólann í Reykjavík en lauk ekki prófi, nam einnig við Latínuskólann en lauk ekki prófi. Var við kennslu í Flatey á Breiðafirði og við bsk. Rvík. Kennari Kvsk. í Rvík 1891-1892 og 1901-02. Nám við Askov 1892-94. Ritstjóri Ársrits Hins ísl. kvenfélags 1895-1899. Fulltrúi Hins ísl. kvenfélags á Þingvallafundi 1895. Frumkvöðull að stofnun Hvítabandsins 1895 og fyrsti formaður þess. Eftir 1903 starfaði Ólafía erlendis, aðallega í Osló, þar sem hún beitti sér fyrir að komið yrði á fót heimili fyrir utangarðsfólk.
Hólmfríður Árnadóttir (1873-1955).
For.: Árni Ásgrímsson og Margrét Þorfinnsdóttir. Ógift og barnlaus. Bjó hér um tíma.
Kvennaskólinn á Laugalandi 1889-90, nám í Rvík 1894-95, nám í ýmsum greinum við Statens Lærerhøjskole, Khöfn, 1903-06. Sumarskóli í Askov 1906. Námskeið í ensku við hásk. Edinborg 1909. Ýmis námskeið við Columbia-hásk. í New York á árunum 1917-22. Kenn. kvsk. Akureyri 1896-1903, skstj. 1902-03, bsk. Akureyri 1906-08, bsk. og unglsk. Ísafirði 908-10. Hafði skóla fyrir ungar stúlkur í Rvík 1910-17. Kenndi íslensku og dönsku við Columbia-hásk. New York 1918-22. Tungumálakennsla í einkatímum í Rvík 1922-50. Hólmfríður var félagi í Hinu íslenska kvenfélagi og Hvítabandinu. Undirbúningsfundur að Bandalagi kvenna var haldinn á heimili hennar í Iðnskólanum í maí 1917 og því ákveðið nafn.
Guðrún Pétursdóttir (1878-1963).
For.: Pétur Kristinsson og Ragnhildur Ólafsdóttir. Maki: Benedikt Sveinsson. Þau eignuðust sjö börn. Benedikt keypti Skólavörðustíg 11a af Ólafíu Jóhannsdóttur árið 1903 og bjuggu þau Guðrún hér alla sína búskapartíð.
Guðrún gekk í Hið íslenska kvenfélag á stofnfundi þess 1894 aðeins fimmtán ára gömul. Hún var einnig einn stofnenda Kvenréttindafélags Íslands og gegndi margskonar trúnaðarstörfum fyrir félagið, var m.a. formaður Mæðrastyrksnefndar um skeið. Guðrún var lengi í stjórn Bandalags kvenna í Reykjavík og var einn stofnfélaga Kvenfélagasambands Íslands og í stjórn þess frá stofnun til 1947 er hún tók við formennsku og gegndi því starfi til 1959. Þá var Guðrún stofnfélagi í Hvöt, félagi sjálfstæðiskvenna í Reykjavík 1937 og í stjórn félagsins 1938-1961. Guðrún var einnig í Heimilisiðnaðarfélagi Reykjavíkur og formaður þess frá 1927-1949.

Skólavörðustígur
Sjúkrahús Hvítabandsins var tekið í notkun árið 1933. Hvítabandskonur hugsuðu sér að hér yrði hvíldarheimili fyrir bágstaddar og heilsulausar konur en vegna mikils skorts á sjúkrarými í hinum nýbyggða Landspítala varð það sjúkrahús frá byrjun. Hvítabandið rak spítalann fyrir eigin reikning til 1942 en þá tók Reykjavíkuborg við rekstrinum.

Heimildir
Björg Einarsdóttir. 2002. Hringurinn í Reykjavík. Stofnaður 1903 – Starfssaga. Hið íslenska bókmenntafélag og Hringurinn.
Björg Einarsdóttir. 1984, 1986. Úr ævi og starfi íslenskra kvenna I.-III. bindi. Bókrún.
Embla
Guðjón Friðriksson. 1995. Indæla Reykjavík. 6 gönguleiðir um Þingholt og sunnanvert Skólavörðuholt. Iðunn.
Margrét Guðmundsdóttir. 1992. Aldarspor. Skákprent.
Sigríður Th. Erlendsdóttir. 1993. Veröld sem ég vil. Saga Kvenréttindafélags Íslands 1907-1992. Kvenréttindafélag Íslands, 1993.