Merki Kvennasögusafns

Kvendoktorar

Íslenskir kvendoktorar

1926-2015

Hvað viltu vita?

Spurt og svarað

Hvenær gerðist það?

Ártöl og áfangar í kvennasögu

Kvennasöguslóðir

Gönguferðir um

Reykjavík

Kvennalistar Reykjavík


Kvennaframboð í Reykjavík 1908-1918

Kosningin 1908
24. janúar 1908 fóru fam kosningar til bæjarstjórnar í Reykjavík og átti að kjósa 15 fulltrúa. Kosningin fór fram í Barnaskólanum (gamla Miðbæjarskólanum) kl. 11-17. Á kjörskrá voru 2.838 en bæjarbúar voru alls 11.016. Konur á kjörskrá voru 1.209 og karlar 1.629. Atvæðisréttar neyttu 593 konur (49%) og 1.027 karlar (63%) eða 57% kjósenda og hafði þátttakan aldrei verið meiri.

Í kosningunum voru bornir fram 18 listar, hvorki fleiri né færri. Kvenfélögin í bænum báru fram sérstakan lista og fékk hann bókstafinn F.

Konurnar unnu geysivel fyrir kosninguna. Þær efndu til fyrirlestra um lagalega stöðu kvenna, um nýju kosningalögin og um bæjar- og sveitarstjórnarmál. Þær skiptu bænum í níu hverfi og kusu nefndir sem höfðu það hlutverk að heimsækja hverja einustu konu með kosningarétt og hvetja hana til að kjósa. Þær opnuðu kosningaskrifstofu og gáfu út kosningastefnuskrá. Í stuttu máli má segja að þær hafi verið upphafsmenn að skipulögðum kosningaáróðri i Reykjavík.

Listi kvenfélaganna fékk langflest atkvæðin, eða 345 að tölu og voru það 21,8% greiddra atkvæða. Hann kom öllum sínum fjórum fulltrúum að. (Sá listi sem næstur var að atkvæðatölu fékk 235 atkvæði).

1908 var kosið um 15 fulltrúa en síðan átti að draga út 5 fulltrúa á 2ja ára fresti og kjósa aðra 5 í þeirra stað. Það voru því kosningar annað hvert ár. Kvenfélög í Reykjavík buðu fram lista í öllum kosningum fram til ársins 1918 að þau buðu fram með karlmönnum í fyrsta sinn. Konur sem kjörnar voru af kvennalista eða fyrir kvenfélögin sátu í bæjarstjórn til ársins 1922.

Fylgi kvennalistanna 1908-1916:
1908: 21,8%
1910: 21,3%
1912: 21,8%
1914: 14,5%
1916: 10,2%

Heimild:
Auður Styrkársdóttir: Barátta um vald. Konur í bæjarstjórn Reykjavíkur 1908-1922. Háskólaútgáfan, 1994, bls. 48-49 og 32.


Fyrstu konurnar í bæjarstjórn
Bríet Bjarnhéðinsdóttir átti hugmyndina að því að kvenfélögin í Reykjavík bæru fram sérstakan kvennalista árið 1908. Kvenfélögin sem stóðu að baki listanum voru fimm að tölu: Kvenréttindafélag Íslands, Hið íslenska kvenfélag, Thorvaldsensfélagið, Hvítabandið og Kvenfélagið Hringurinn (öll starfa þessi félög enn þann dag í dag nema Hið íslenska kvenfélag).

Efst á listanum var Katrín Magnússon, formaður Hins íslenska kvenfélags, í öðru sæti var Þórunn Jónassen, formaður Thorvaldsensfélagsins, í því þriðja Bríet Bjarnhéðinsdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands og í því fjórða Guðrún Björnsdóttir, sem var félagi í Kvenréttindafélagi Íslands. Hér eru stutt æviágrip þeirra og annarra kvenna sem kjörnar voru í bæjarstjórn af kvennalistunum gömlu:

Katrín Magnússon (1858-1932)
Þórunn Jónassen (1850-1922)
Bríet Bjarnhéðinsdóttir (1856-1940)
Guðrún Björnsdóttir (1853-1936)
Guðrún Lárusdóttir (1880-1938)


Inga Lára Lárusdóttir (1883-1949)

------------------------------------------------------------------