Merki Kvennasögusafns

Kvendoktorar

Íslenskir kvendoktorar

1926-2015

Hvað viltu vita?

Spurt og svarað

Hvenær gerðist það?

Ártöl og áfangar í kvennasögu

Kvennasöguslóðir

Gönguferðir um

Reykjavík

Kvennafrídagur 24. október 1985

Árið 1985 var lokaár kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna og margir viðburðir voru skipulagðir af hálfu kvennasamtaka. Má þar nefna gróðursetningu trjáa um land allt og hátíðarfund á Þingvöllum þann 19. júní, en þá voru einmitt liðin 70 ár frá því konur fengu takmarkaðan kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Staðið var fyrir undirskriftasöfnun undir friðarávarp í samvinnu við Friðarhreyfingu íslenskra kvenna sem afhent var á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Nairóbí. Haldin var Listahátíð kvenna þar sem sýnd var myndlist, höggmyndalist, húsagerðalist og ljósmyndir eftir konur, haldin var sérstök kvikmyndahátíð kvenna, konur léku á tónleikum eingöngu verk eftir konur, það voru lesin ljóð og leikið og margt fleira. Listahátíðin var sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Gefin var út bókin Konur, hvað nú? og rituðu kunnugar konur í hana greinar um löggjöf, menntun, atvinnuþátttöku, laun, forystu, félagslega stöðu, heilbrigðismál og menningarmál.

Þann 24. október opnaði í seðlabankabyggingunni, sem þá var hálfköruð, mikil sýning kvenna er bar heitið Kvennasmiðja. Kjörorð hennar var: Konan - vinnan - kjörin. Sýningin var opin í vikutíma og þar gafst almenningi kostur á að kynnast atvinnuþáttöku kvenna í þjóðfélaginu. Samnefnt dagblað var gefið út og geymir það miklar upplýsingar.

Sama dag og sýningin opnaði var haldinn glæsilegur útifundur kvenna á Lækjartorgi sem talið er að 18 þúsund manns hafi sótt. Því miður hafa ræðurnar sem haldnar voru á fundinum ekki varðveist en hér má sjá auglýsingu um dagskrá fundarins:

Gögn kvennafrídagsins eru varðveitt á Kvennasögusafni: KSS 73. Kvennafrí 1985, 2005, 2010. Einkaskjalasafn.

Fleiri ljósmyndir má finna á facebook-síðu Kvennasögusafns.