Merki Kvennasögusafns

Kvendoktorar

Íslenskir kvendoktorar

1926-2015

Hvað viltu vita?

Spurt og svarað

Hvenær gerðist það?

Ártöl og áfangar í kvennasögu

Kvennasöguslóðir

Gönguferðir um

Reykjavík

Inga Lára Lárusdóttir


Inga Lára Lárusdóttir (1883-1949)


1918-1922 í bæjarstjórn Reykjavíkur

* 23.9. 1883 í Selárdal, Dalahreppi í V-Barðastrandasýslu  †7.11. 1949 í Reykjavík

Foreldrar: Lárus Benediktsson, prestur í Selárdal, og kona hans Ólafía Sigríður Ólafsdóttir.

Ógift og barnlaus.

Inga Lára Lárusdóttir var elst fimm systkina. Árið 1902 fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur og hóf hún þá nám við Kvennaskólann í Reykjavík og sat þar veturinn 1902-1903. Á árunum 1904-1907 stundaði hún nám í Danmörku og Svíþjóð, m.a. við Berlitz School of Language í Kaupmannahöfn. Hún fór einnig til Svíþjóðar veturinn 1910-1911 að læra handiðnir. Inga Lára var kennari við Barnaskóla Reykjavíkur 1907-1917 og kenndi við Kvennaskólann í Reykjavík frá árinu 1921.

Árið 1917 hóf Inga Lára útgáfu tímaritsins 19. júní og gaf það út samfleytt til ársins 1929. Í blaðið skrifuðu konur hvaðanæva að af landinu og má sjá m.a. greinar eftir Bjögu Þorláksdóttur, Steinunni H. Bjarnason, Laufeyju Vilhjálmsdóttur, Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og Ingibjörgu H. Bjarnason. Blaðið var kvenréttindablað, umræðuefnin almenn staða kvenna, staða þeirra innan heimilanna, menntun og þátttaka í opinberu lífi.

Inga Lára tók þátt í ýmsum félagsskap frá unga aldri. Hún var einn af stofnendum Lestrafélags kvenna árið 1911 og Heimilisiðnaðarfélags Íslands árið 1913. Hún var fyrsti formaður Bandalags kvenna er það var stofnað árið 1917. Inga Lára var í Kvenréttindafélagi Íslands og sat í stjórn þess 1912-1913. Hún tók virkan þátt í alþjóðastarfi kvenfélaga, sótti m.a. fund alþjóðasambands kosningaréttarfélaga í Stokkhólmi árið 1911 fyrir Kvenréttindafélagið og fundi International Congress of Women í Osló árið 1920 og í Washington árið 1925 fyrir Bandalag kvenna.

Í bæjarstjórnarkosningunum 1918 bauð félagið Sjálfstjórn, félag borgara sem sameinuðust gegn alþýðuflokksmönnum, Bandalagi kvenna annað sætið á lista sínum og tók Inga Lára það sæti. Inga Lára sat í fátækranefnd, leikvallanefnd og dýrtíðarnefnd.Heimild:
Hrafnhildur Ragnarsdóttir:„Hver var hún? Inga Lára Lárusdóttir og tímarit hennar 19. júní“, Sagnir 24. árg. 2004, bls. 26-35. Ljósmynd bls. 27


Stafræn útgáfa © Útgáfuréttur 2008 Kvennasögusafn Íslands