Merki Kvennasögusafns

Kvendoktorar

Íslenskir kvendoktorar

1926-2015

Hvað viltu vita?

Spurt og svarað

Hvenær gerðist það?

Ártöl og áfangar í kvennasögu

Kvennasöguslóðir

Gönguferðir um

Reykjavík

Í samstöðunni felst sigur kvenna

Í samstöðunni felst sigur kvenna - Framlag íslenskra kvenna til alþjóðlega kvennaársins

(Grein Gerðar Steinþórsdóttur sem birtist í bókinni Konur skrifa til heiðurs Önnu Sigurðardóttur, Sögufélag, Reykjavík 1980, s. 45-55)

24. dagur októbermánaðar 1975 rann upp og veðurguðirnir reyndust jafnréttisbaráttunni hliðhollir í þetta sinn. Veðrið var milt, þurrt og hlýtt eftir árstíma. Leiðarar morgunblaðanna fjölluðu um sama efni, jafnrétti karla og kvenna. Í morgunútvarpinu hljómuðu baráttusöngvar í þessum anda:

Í augsýn er nú frelsið,
og fyrr það mátti vera..

Á þessum degi Sameinuðu þjóðanna gerðist einstæður og merkilegur atburður í þjóðarsögunni sem vakti heimsathygli: íslenskar konur úr öllum stéttum, til sjávar og sveita, helmingur þjóðarinnar, lögðu niður störf til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags síns. Þetta var framlag íslenskra kvenna til hins alþjóðlega kvennaárs. Þetta var liður í baráttunni til að ná raunverulegu jafnrétti. Þennan dag lamaðist atvinnulífið í landinu að miklu leyti: dagheimili, barna- og gagnfræðaskólar voru lokaðir, einnig stórverslanir, frystihús og leikhús og engin síðdegisblöð komu út. Sumir vinnustaðir voru opnir og má nefna bankana þar sem karlar gengu í störf kvenna, jafnvel bankastjórarnir, og mikið var af börnum að leik.
     Framkvæmdanefnd um vinnustöðvun hafði komið upp "opnum húsum" á átta stöðum í Reykjavík og voru þeir opnir frá því snemma morguns fyrir konur til að koma og spjalla. Húsmæður gengu út af heimilunum en eiginmenn urðu að taka börn með sér í vinnu ellegar dvelja heima.
     Í auglýsingatíma útvarpsins í hádeginu las þulurinn: „Konur um allt land. Stöndum saman!" „Komum í opnu húsin. Enginn situr heima á kvennafrídaginn." „Konur, hittumst á Lækjartorgi kl. 2." Og undirskriftin var Framkvæmdanefnd um kvennafrí.
     Konurnar streymdu að torginu úr öllum áttum eins og ár sem sameinast í eitt voldugt fljót. Á fundinn komu einnig konur úr nágrannabyggðum með bát eða rútubíl til að sýna samstöðu. Á meðan lék Lúðrasveit stúlkna breskan súffragettumars „Saman við stöndum" en kvikmynd um baráttu kvenna fyrir kosningarétti hafði verið sýnd í sjónvarpinu fyrr á árinu og vakið athygli og aðdáun. Margar kour báru spjöld með myndum og áletrunum, t.a.m. „Jafnrétti, framþróun, friður", „Fleiri dagheimili", „Launajafnrétti í raun", „Kvennafrí - hvað svo?"
     Þá hófst dagskráin og höfðaði hún til sem flestra hópa kvenna. Þrjár konur fluttu ávörp, verkakona, verslunarmaður og húsmóðir (Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Björg Einarsdóttir og Ásthildur Ólafsdóttir). Rödd verkakonunnar hljómaði, sterk, hrjúf og heit:

 „Konan er að vakna. Hún veit að karlmenn hafa ráðið í heiminum frá því sögur hófust. Og hvernig hefur sá heimur verið? Hann hefur löðrað í blóði og logað af kvöl. Ég trúi að þessi heimur breytist þegar konur fara að stjórna til jafns við karla. Ég vil og ég trúi því að þið viljið það allar að heimurinn afvopnist. Allt annað eru stjórnmálaklækir og hræsni. Við viljum leysa ágreiningsmál án vopna."

Stemmningin var gífurleg. Þarna stóðum við þrjátíu þúsund og fundum til máttar samstöðunnar. Þá fluttu tvær af þremur kvenþingmönnum (Svava Jakobsdóttir og Sigurlaug Bjarnadóttir) hvatningar til kvenna að fjölmenna á þing. Kvenréttindafélag Íslands og Rauðsokkahreyfingin voru með þætti og flutt var kvennakrónika í þríliðu. Fjölmörg skeyti með baráttukveðjum bárust fundinum. Á milli atriða var fjöldasöngur „Ó, ó, ó stelpur", „Svona margar" og ljóð dagsins:

Hvers vegna kvennafrí?
Konurnar fagna því...

Eftir fundinn, sem stóð í tvo tíma, flykktust konurnar í opnu húsin og ræddu yfir kaffibolla. Listamenn fóru milli húsa og skemmtu í sjálfboðavinnu.
     Þessi dagur reyndist mörgum karlmönnum erfiður. Barnaumönnun var í þeirra höndum. Mikið seldist af pylsum daginn áður og á grillstöðunum voru margir viðvangingar við störf. Sumir töluðu um föstudaginn langa.
     Kvennafríið vakti heimsathygli eins og að framan greinir. Með aðgerðinni sýndu íslenskar konur samstöðu með kynsystrum sínum um heim allan. Ein konan sagði sigri hrósandi: „Þetta er það merkilegasta sem hefur gerst á Íslandi síðan Njála var skrifuð."
Miklar vonir voru bundnar við þessa aðgerð. Bréf og heillaóskaskeyti streymdu frá erlendum kynsystrum. Sem dæmi tek ég bréf frá bandarískri konu:

„Ég hef unnið mörg láglaunastörf um dagana og veit þess vegna hvílíka dirfsku þurfti til að gera það sem íslenskar konur gerðu. Ef til vill líða mörg ár þar til þið gerið ykkur grein fyrir því hvaða vonir þrekvirki ykkar hefur vakið víða um heim. Framlag einstakrar konu er smátt en hversu stórkostlegt þegar margar leggja saman! Ég hélt ekki að slíkt gæti gerst nú á dögum. Barátta ykkar var mér ókunn þar til nú en fyrir þann sóma sem þið hafið sýnt okkur öllum stend ég í ævarandi þakkarskuld við ykkur..."

Þannig varð dagurinn hvatning og kraftur samstöðunnar átti að verða leiðarljós í baráttunni fyrir raunverulegu jafnrétti.

Júníráðstefnan
Hverfum aftur í tímann. Sameinuðu þjóðirnar samþykktu að gera árið 1975 að alþjóðlegu kvennaári. Í yfirlýsingunni fólst viðurkenning á því að helmingur mannkynsins, konur, væri beittur kynferðislegu misrétti. Í yfirlýsingunni var skorað á þjóðir heims að vinna að jafnrétti, framþróun og friði.
Undirbúningur kvennaársins á Íslandi hófst vorið 1974 með samstarfi fimm fjölmennustu kvennasamtaka landsins, sem hafa þrjátíu þúsund konur innan vébanda sinna, ásamt fulltrúa frá félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Þessi samtök voru Kvenfélagasamband Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Rauðsokkahreyfingin, Félag kvenstúdenta og Félag háskólakvenna. Þessi samstarfsnefnd ákvað m.a. að halda aðalráðstefnu ársins í Reykjavík 20.-21. júní. Þangað komu á þriðja hundrað fulltrúar félaga alls staðar að af landinu. Þótti ráðstefna þessi hin merkasta þar sem ekki hafði það gerst áður að konur úr öllum stéttum og flokkum þinguðu saman. Var ráðstefnan kölluð hápunktur kvennaársins í fjölmiðlum - en meira var í vændum. Á ráðstefnunni var m.a. eftirfarandi tillaga samþykkt:
Kvennaráðstefnan, haldin dagana 20. og 25. júní 1975 í Reykjavík skorar á konur að taka sér frí frá störfum á degi Sameinuðu þjóðanna 24. október næstkomandi til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags síns.
     Hugmyndina um allsherjar kvennaverkfall má rekja allt til ársins 1970 er henni var vapað fram hjá rauðsokkum (sjá Vísir 28, október 1970). Hún hlaut þá engan hljómgrunn en var aftur á dagskrá 1973. En fyrsta opinbera viljayfirlýsingin um kvennafrí kom fram á ráðstefnu um kjör láglaunakvenna í janúar 1975, en að henni stóðu nokkur verkakvennafélög og Rauðsokkahreyfingin. En verulegan stuðning hlaut hugmyndin fyrst á júníráðstefnunni sem haldin var á Hótel Loftleiðum. Styrkurinn fólst í því að nú voru flutningsmenn tillögunnar, átta að tölu, konur úr ólíkum stjórnmálaflokkum til hægri og vinstri. Reyndar var tillagan borin upp og samþykkt er mjög var liðið á fundartímann og tekið að fækka á fundinum. Aðeins 100 konur tóku þátt í atkvæðagreiðslunni og voru 72 með tillögunni en 28 á móti.

Aðgerðin skipulögð
Helvi Sipilä framkvæmdastjóri kvennaársnefndar Sameinuðu þjóðanna kom til Íslands sumarið 1975 á þing norrænna lögfræðinga. Var þá kynnt fyrir henni hugmyndin um kvennafrí. Hún sagði að slík aðgerð væri ekki lögleg en bætti við: „Ef aðgerðin tekst vel mun hún vekja heimsathygli og ég teldi hana eina þá gagnmerkustu á kvennaárinu."
     27. ágúst mynduðu flutningsmenn tillögunnar um kvennafrí bráðabirgðastarfshóp ásamt fulltrúa frá Rauðsokkahreyfingunni sem frá upphafi hafði sýnt málinu mikinn áhuga. Var sent bréf til stéttarfélaga, kvenfélaga og annarra áhuga- og hagsmunahópa og þeim boðið að senda fulltrúa í víðtæka samstarfsnefnd um kvennafrí. Undirtektir voru góðar. Var fundur haldinn í Hamragörðum 11. september. Kannanir voru gerðar á nokkrum stórum vinnustöðum sem sýndu að 80-100% kvenna myndu leggja niður vinnu. Á framhaldsfundi í Norræna húsinu 15. september stofnuðu fulltrúar frá u.þ.b. fimmtíu félögum og samtökum í Reykjavík samstarfsnefnd um framkvæmd kvennafrís 24. október. Var skipuð tíu manna framkvæmdanefnd, hluti hennar flutningsmenn tillögunnar og fimm starfshópar með um áttatíu konum til að vinna að sérstökum verkefnum. Voru tveir úr framkvæmdanefninni oddamenn fyrir hverjum starfshópi. Þeir voru kynningarhópur, fjölmiðlahópur, fjáröflunarhópur, landsbyggðarhópur og dagskrárhópur. Hér er að finna eina ástæðuna fyrir því hve verkfallið heppnaðist vel, það er í mjög markvinnu skipulagi með alla þræði í framkvæmdastjórn og út í nefndirnar.
     Framhaldið var ævintýri líkast. Verkalýðshreyfingin veitti málinu þegar stuðning og Verkakvennafélagið Sókn varð fyrst til þess að styrkja framkvæmdina fjárhagslega.
     Kynningarhópur sendi frá sér fyrstu fréttatilkynninguna í lok september til allra fjölmiðla í landinu: útvarps, sjónvarps, dagblaðanna sex, byggðablaða og til fulltrúa erlendra fréttastofnana á Íslandi. Greint var frá stofnun samtakanna, sagt frá könnunum á vinnustöðum, fjárframlagi og stuðningi og fríið ætti að ná til kvenna um allt land. Dreifibréfið fylgdi með og sagt að því yrði dreift á vinnustaði og heimili.
Fjáröflunarhópurinn hafði samband við félög sem sent höfðu fulltrúa í nefndina og bað um fjárframlög til fundarins, en ólöglegt var að styrkja aðgerðina sem slíka fjárhagslega. Reyndin varð sú að bæði þessi félög og önnur sendu fjárframlög og margar stuðningsyfirlýsingar bárust úr ólíkum áttum, frá stórum stéttarfélögum og pólitískum samtökum. Límmerki með merki kvennaársins var gert í 25000 eintökum í áróðurs- og fjáröflunarskyni. Voru þau límd alls staðar: á föt, töskur, veggi, rúður og reyndist límið þrælsterkt. Einnig var prentað plakat í 6000 eintökum með mynd af Vatsberanum eftir Ásmund Sveinsson sem átti að minna á verksögu kvenna. Á plakatinu stóð: „Stöndum saman 24. október". Var því dreift á vinnustaði.
     Landsbyggðarhópurinn sendi bréf til allra kvenfélaga og stéttarfélaga um landið og hvatti þau til að undirbúa aðgerðir og fundahöld hver á sínum stað.
     Dagskrárhópur undirbjó fundinn á Lækjartorgi og skyldi dagskráin höfða til mismunandi hópa kvenna eins og áður er fram komið.
     Í allri skipulagningu var unnið markvisst að því að höfða til allra hópa kvenna með því að halda jafnvægi og breidd. Í upphafi var ákveðið að leggja til hliðar mál sem ekki næðist samstaða um og var svo gert. Þá var áréttað að aðgerðin væri frí en ekki verkfall. Bæði mundi orðið verkfall fæla frá þátttöku og ekki gætu atvinnurekendur vikið starfsmanni úr vinnu þótt hann tæki sér frí í einn dag. Auk þess mættu karlmenn ganga í störf kvennanna, en slíkt er ekki leyfilegt í verkfalli. Í upphafi var tímalengdin látin liggja milli hluta en áhersla lögð á að konur kæmu á fundinn. Fyrir daginn voru orðin verkfall og frí notuð jöfnum höndum bæði í fjölmiðlum og manna á meðal.
     Verður nú aftur vikið að dreifibréfinu „Hvers vegna kvennafrí?" Bréfið hófst með samþykktinni frá júníráðstefnunni. Síðan segir... (smellið hér)
     Hjólin tóku að snúast, æ hraðar eftir því sem dagurinn nálgaðist. Vinnan var geysimikil en spennandi og skemmtileg. Allar konurnar unnu í sjálfboðavinnu og notuðu eigin bíla og síma. Við höfðum eitt sameiginlegt markmið: að dagurinn sjálfur tækist sem best. Fjölmiðlar fylgdust með undirbúningi og mikil umræða fór fram í blöðum um jafnréttismál og konur hvattar til að íhuga stöðu sína og sýna samstöðu. Þær sem ekki teldu sig misréti beittar ættu að styðja við bakið á hinum. Morgunblaðið og Þjóðviljinn höfðu allt árið vikulega síðu um jafnréttismál og voru þær óspart notaðar enda umsjónarmenn virkir í kvennafrísnefndunum. Þá voru útvarps- og sjónvarpsþættir nýttir. Persónuleg sambönd voru einnig gjörnýtt. Keyptar auglýsingar voru í lágmarki og eingöngu auglýst dagana 22.-24. október.
     Erlendir fréttamenn, einkum frá Norðurlöndum, sýndu málinu vaxandi áhuga. Fyrst voru það kvennablöðin, en önnur fylgdu í kjölfarið. Landhelgi Íslendinga var færð úr 50 í 200 sjómílur 15. október. Margir blaðamenn komu af því tilefni og biðu kvennafrísins. Um einn fréttamann vissum við sem fór heim eftir útfærsluna en var samstundis sendur aftur.
     Vikuna fyrir 24. október var hráslagi og rigning, enda komið haust. Vð vorum sannfærðar um að þáttaka yrði mikil og lýstum því yfir á blaðamannafundi í Hamragörðum 16. október að kvennafrísfundurinn 24. október yrði fjölmennasti baráttufundur sem haldinn hefði verið á Íslandi til þessa - og reyndumst við sannspáar. Fréttir bárust utan af landi að undirbúningur væri í fullum gangi og mikill áhugi ríkti. Þá hélt fjölmiðahópur fund með erlendum blaðamönnum 23. október og sóttu hann nítján fréttamenn. Síðustu nóttina höfðum við merkilegar draumfarir: eina dreymdi fjallgöngu, aðra að hún stæði nakin á torginu (hún var ræðumaður), þá þriðju að hún stæði alein á torginu og guð minn góður, klukkan sló tvö síðdegis!

Jarðvegurinn undirbúinn
Talið er að 90% kvenna hafi lagt niður vinnu þennan dag. Hvernig var slík samstaða möguleg? Ég tel að ástæðuna megi að nokkru leyti rekja til skipulags, bæði kvennaársins og kvennafrísins, einnig til smæðar samfélagins þar sem maður þekkir mann. Þó er skipulag ekki einhlítt: jarðvegurinn var plægður og frjór, stemmning lá í loftinu, alþjóðlegt kvennaár. Og aðgerðin var fyrst og fremst viðurkenning á kynferðislegu ranglæti.
     Við mættum mótbyr, en aldrei sterkum. Reynt var að gera grín að kvennafríinu og spurt hvort það ætti að ná til svefnherbergisins. Einnig komst sá orðrómur á kreik að konum yrði sagt upp störfum tækju þær frí, en hann var borinn til baka þegar framkvæmdanefndin leitaði upplýsinga á viðkomandi stöðum. Einnig gætti þess nokkuð að reynt var að draga úr áhrifamætti dagsins og gera hann að hátíð. Öll opinber fyrirtæki greiddu konum full laun og hið sama gerðu sum einkafyrirtæki. Þær konur sem unnu á tímakaupi fengu hins vegar engin laun. Þannig bitnaði óréttlætið einnig þennan dag mest á þeim konum sem réttlausastar voru.

Heimildir varðveittar á Kvennasögusafni
Kvennasögusafn Íslands var stofnað á fyrsta degi kvennaársins að Hjarðarhaga 26 - og var það vel við hæfi. Markmið safnsins er að safna upplýsingum um sögu íslenskra kvenna og heimildum um líf þeirra og störf.
     Framkvæmdanefnd kvennafrísins efndi til fundar á Hótel Sögu 28. mars 1976. Tilefnið var að afhenda Kvennasögusafninu öll gögn um kvennafríið til varðveislu, svo sem fundargerðir, bréf og skeyti ásamt bókum með blaðaúrklippum um kvennafríið (um 200 síður). Þá var forstöðumanni safnsins afhentur tekjuafgangur að upphæð kr. 800.000 til kaupa á tækjum og til að hefja skipulega skráningu safnsins.
     Með þessum fundi lauk samstarfi um kvennafrí. Aðgerðin hafði heppnast stórkostlega, verið vel skipulögð og hnitmiðuð, jafnvel veðurguðirnir voru okkur hliðhollir. Ein kona sagði 24. október að hún væri viss um að guð væri kona. Svona var stemmningin frábær.
     Samstarfið var gott í flesta staði. Ekki var það þó misfellu- eða átakalaust. Kom upp persónulegur og pólitískur ágreiningur og rígur. Og ekki reyndist grundvöllur hjá kvennafrísnefndinni fyrir áframhaldandi þverpólitísku samstarfi um jafnréttismál.
     Þessari stuttu grein er ekki ætlað að gera úttekt á kvennafríinu heldur rekja sögu þess í stórum dráttum. Þeir sem vilja kynna sér kvennafríið nánar geta lagt leið sína á Kvennasögusafnið. Það er gott að vita af þessum heimildum í svo tryggum og góðum höndum.
     Mér, einni þúsunda, sem upplifði 24. október 1975, verður hann ógleymanlegur, stórkostlegur, sögulegur. Ég trúi því að ekki síst vegna hans hafi Vigdís Finnbogadóttir verið kjörin forseti Íslands 29. júní 1980. - Það hefur verið gaman að lifa þessa tíma og fá að taka þátt í mótun sögunnar.
24. október var einkum og sér í lagi hugsaður sem vitundarvakning, og hann varð voldugur baráttu- og sameiningardagur kvenna. Framundan var þróunaráratugur Sameinuðu þjóðanna þar sem vonir áttu að umbreytast í veruleika:

Frelsi skal ríkja á jörð,
jafnrétti, framþróun, friður.