Merki Kvennasögusafns

Kvendoktorar

Íslenskir kvendoktorar

1926-2015

Hvað viltu vita?

Spurt og svarað

Hvenær gerðist það?

Ártöl og áfangar í kvennasögu

Kvennasöguslóðir

Gönguferðir um

Reykjavík

Hvers vegna kvennafrí?

Framkvæmdanefnd um kvennafrí útbjó neðangreindan texta og dreifði um bæi og borg fyrir Kvennafrídaginn 24. október 1975. Hér voru taldar fram þær ástæður sem lágu að baki því að konur tækju sér frí. Dreifiritið var einnig útbúið á, dönsku, norsku og sænsku. Sjá myndir af dreifiritunum hér fyrir neðan.

Hvers vegna kvennafrí?

Kvennaráðstefnan, haldin dagana 20. og 21. júní 1975, í Reykjavík, skorar á konur að taka sér frí frá störfum á degi Sameinuðu þjóðanna 24. október n.k. til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags síns.
    
Hvers vegna er tillaga sem þessi borin fram og samþykkt á ráðstefnu, þar sem saman voru komnar konur á öllum aldri, úr öllum stjórnmálaflokkum? Ástæðurnar eru margar, en hér eru nokkrar:

 • Vegna þess að vanti starfsmann til illa launaðra og lítils metinna starfa, er auglýst eftir konu.

  Vegna þess að meðallaun kvenna við verslunar- og skrifstofustörf eru aðeins 73% af meðallaunum karla við sömu störf.
 •  
 • Vegna þess að engin kona á sæti í aðalsamninganefnd Alþýðusambands Íslands.
 •  
 • Vegna þess að mismunur á meðaltekjum verkakvenna og verkakarla er kr. 30.000 á mánuði.
 •  
 • Vegna þess að bændakonur eru ekki fullgildir aðilar að samtökum stéttar sinnar.
 •  
 • Vegna þess að algengt svar er, þegar spurt er um starf konu, sem gegnir húsmóðurstarfi „hún gerir ekki neitt - hún er bara heima.“
 •  
 • Vegna þess að til eru menn með ákvörðunarvald um stofnun dagvistarheimila fyrir börn, sem telja þau aðeins til að auka á leti kvenna.
 •  
 • Vegna þess að vinnuframlag kvenna í búrekstri er metið til kr. 175.000 á ári.
 •  
 • Vegna þess að kynferði umsækjenda ræður oft meiru um stöðuveitingu en menntun og hæfni.
 •  
 • Vegna þess að starfsreynsla húsmóður er einskis metin á vinnumarkaðinum.

Sameiginleg niðurstaða er sú, að framlag kvenna til samfélagsins sé lítils virt. Sýnum okkur sjálfum og öðrum, hve mikilvægt framlag okkar er, með því að leggja niður vinnu 24. október. Sameinumst um að gera daginn að eftirminnilegum baráttu- og sameiningardegi undir kjörorðum kvennaárs Sameinuðu þjóðanna:

JAFNRÉTTI - FRAMÞRÓUN - FRIÐUR

Framkvæmdanefndin um kvennafrí


Heimild: KSS 1 Kvennafrí 1975