Merki Kvennasögusafns

Kvendoktorar

Íslenskir kvendoktorar

1926-2015

Hvað viltu vita?

Spurt og svarað

Hvenær gerðist það?

Ártöl og áfangar í kvennasögu

Kvennasöguslóðir

Gönguferðir um

Reykjavík

Guðrún Þorleifsdóttir (1873–1961)

Vinnukonur unnu almennt lengri vinnudaga en vinnumenn og fengu einnig mun minni laun fyrir sömu vinnu. Ástæðan var sú að eftir að vinnudeginum lauk var ætlast til þess að konur þjónuðu mönnunum með því að bæta föt og annað slíkt. (T.d. Friðrik Ásmundsson „Nokkrar athugasemdir“, Kvennablaðið 20. mars 1910, bls. 19–20).

Árið 1916 fékk Guðrún Þorleifsdóttir (1873–1961) í Árnessýslu nóg af því að þurfa að vinna utan vinnutíma með því að þjóna vinnumanninum og neitaði að gera það áfram. Missti hún vinnuna fyrir vikið. En hún tók málin í sínar hendur, sendi sýslumanni kærubréf á hendur fyrrverandi húsbónda og fékk greiddar skaðabætur. Sagt er að eftir málið hafi konur ekki lengur þurft að þjónusta vinnumenn í Árnessýslu.

 „Guðrún réðst kaupkona til bónda í sýslunni og hafði með sér dóttur sína á þriðja ári. Kaupamaður var og á bænum og var kaup hans að venju miklu hærra en kaup Guðrúnar. Og samkvæmt venju var ætlast til þess að Guðrún þjónaði kaupamanninum. Guðrún neitaði að þjóna sér alveg óviðkomandi karlmanni enda hafði hún nóg með að þjóna barninu og sjálfri sér eftir langan og strangan vinnudag við heyskapinn. Húsbóndinn neitaði að sleppa henni við þjónustubrögðin. Guðrún sagðist heldur fara úr kaupavinnunni en hlýðnast kröfu húsbónda. Bóndi sagði að það gæti hún ekki þar sem hún væri vistráðið hjú hjá sér. Hann myndi stefna henni fyrir „rétt“ ef hún ekki þjónaði kaupamanninum. En ekki stefndu húsbændur hennar heldur ráku hana með barnið út af heimilinu. Guðrún Þorleifsdóttir kærði sem fyrr segir og var bónda gert að greiða henni skaðabætur fyrir vistorfin. Dæmt var í málinu í janúar 1917. Margt fólk var á þinstað þegar þingið var í þessu máli og hreifst það af frammistöðu Guðrúnar, ekki síst kvenfólkið. Sagt var að eftir þetta hafi lagst niður að mestu þar um slóðir að ætlast til þess að kaupakonur þjónuðu kaupamönnum endurgjaldslaust.“ (Anna Sigurðardóttir, Vinna kvenna, bls. 230–232.)

Heimildir og ítarefni:

Kvennablaðið 20. mars 1910, bls. 19–20.

Morgunblaðið 16. janúar 1992, bls. 43–44.

Anna Sigurðardóttir, Vinna kvenna á Íslandi í 1100 ár, Reykjavík 1985, bls. 230–232.

Ingveldur Gísladóttir, Myndir og minningabrot, Reykjavík 1973, bls. 22–24.

Sigríður Hjördís Jörundsdóttir, „Fáar voru frelsisstundirnar“ Sagnir 14. árg. 1993, bls. 14–21

Mynd: https://www.flickr.com/photos/7461781@N05/576754027/

Kvennasögusafn Íslands tekur við skjalasöfnum - bréfum, dagbókum o.þ.h. - frá einstaklingum og félagasamtökum. Hafðu samband ef þú vilt afhenda skjöl.