Merki Kvennasögusafns

Kvendoktorar

Íslenskir kvendoktorar

1926-2015

Hvað viltu vita?

Spurt og svarað

Hvenær gerðist það?

Ártöl og áfangar í kvennasögu

Kvennasöguslóðir

Gönguferðir um

Reykjavík

Bríet í 160 ár

Hér má finnna sérvef um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur á heimasíðu Kvennasögusafns.

Bríet í 160 ár - sýning opnuð 27. september 2016

Texti úr sýningarskrá:

Á þessu ári er þess minnst að 160 ár eru frá fæðingu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Bríet var einn af frumkvöðlum baráttunnar fyrir jafnri stöðu kynjanna á Íslandi.

Hún fæddist þann 27. september 1856 að Haukagili í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu og var dóttir Kolfinnu Snæbjörnsdóttur og Bjarnhéðins Sæmundssonar, vinnuhjúanna á bænum. Bríet var fyrsta barn þeirra og elst fjögurra systkina. Þremur árum eftir fæðingu Bríetar fluttist fjölskyldan að Böðvarshólum í Vesturhópi í Vestur-Húnavatnssýslu og þar ólst Bríet upp. Veturinn 1877–1878 sótti Bríet Kvennaskólann að Laugalandi í Eyjafirði og var það eina skólaganga hennar. 

Bríet hélt til Reykjavíkur haustið 1884 og sumarið 1885 skrifaði hún blaðagrein sem hét „Nokkur orð um menntun og rjettindi kvenna. (Eptir unga stúlku í Reykjavík.)“. Greinin birtist í Fjallkonunni undir dulnefninu „Æsa“. Var þetta í fyrsta sinn sem grein eftir konu var birt á Íslandi. Stofninn að greininni voru hugleiðingar sem hún hafði skrifað hjá sér sextán ára gömul um mismuninn á möguleikum og kjörum drengja og stúlkna.

Þann 30. desember árið 1887 hélt hún opinberan fyrirlestur fyrst kvenna á Íslandi. Fór fyrirlesturinn fram fyrir fullu húsi í Góðtemplarahúsinu og nefndist „Um hagi og réttindi kvenna“. Þar talaði hún um m.a. um kvenfrelsi og nauðsyn þess að konur menntuðu sig til að öðlast sjálfstæði.

Haustið 1888 giftist hún Valdimar Ásmundssyni, ritstjóra Fjallkonunnar. Saman eignuðust þau tvö börn, Laufeyju og Héðin. Laufey varð fyrst kvenna til að ljúka stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1910. Bríet stofnaði mánaðarritið Kvennablaðið árið 1895 og ritstýrði því í 25 ár. Eftir lát Valdimars árið 1902 ritstýrði hún Fjallkonunni um tíma.

Bríet var frumkvöðull að stofnun Kvenréttindafélags Íslands í janúar 1907 og var félagið stofnað á heimili hennar af henni sjálfri og fjórtán konum sem þar höfðu safnast saman. Með stofnuninni hófst skipulögð kvenréttindahreyfing hér á landi og var meginmarkmið félagsins að konur fengju fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn. Bríet var ein af fyrstu fjórum konum til að vera kjörnar í bæjarstjórn Reykjavíkur af sérstökum Kvennalista sem bauð sig fram árið 1908 og gegndi stöðu bæjarfulltrúa í alls níu ár. Hún var fyrsta konan til að bjóða sig fram til þings árið 1916 en hlaut ekki brautargengi.

Bríet hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1928. Hún hélt áfram öflugu baráttustarfi sínu fyrir kvenfrelsi og jafnrétti kynjanna á efri árum. Bríet andaðist 16. mars 1940, 84 ára gömul. „Enginn einn Íslendingur átti meiri þátt í því að íslenskar konur fengu lagalegt jafnrétti á við karla. Hún ruddi brautina, mótaði stefnuna og stjórnaði sjálf baráttunni“ (Sigríður Th. Erlendsdóttir, 2006).

Heimild:

Sigríður Th. Erlendsdóttir, erindi flutt á málþingi um Bríeti þann 29. september 2006 sem Kvennasögusafn Íslands og Rannsóknastofa í kvennafræðum stóðu fyrir til að minnast þess að 150 ár voru liðin frá fæðingu Bríetar. Erindið má lesa í heild sinni á vef Kvennasögusafns Íslands.

 

Ítarefni:

  • Aðalbjörg Sigurðardóttir, „Bríet Bjarnhéðinsdóttir og lífsstarf hennar“. Kvenréttindafélagið 40 ára 1907-1947. ritstj. Ingibjörg Benediktsdóttir o.fl (Reykjavík: Kvenréttindafélag Íslands 1947) bls. 43-48
  • Björg Einarsdóttir (1986). „Stórveldi í sögu íslenskra kvenna“. Úr ævi og starfi íslenskra kvenna. II. bindi (Reykjavík: Bókrún hf 1986), bls. 224-249
  • Bríet Bjarnhéðinsdóttir, „Sjálfsævisaga“. Merkir Íslendingarnýr flokkur. Jón Guðnason bjó til prentunar 6. bindi. (Reykjavík: Bókfellsútgáfan 1967), bls. 115-129
  • Bríet Bjarnhéðinsdóttir, „Úr sjálfsævisögu“. Mánasilfur. Safn endurminninga. Gils Guðmundsson valdi og sá um útgáfu, 1.bindi. (Reykjavík: Iðunn, 1979), bls. 65-71
  • Bríet Héðinsdóttir, Strá í hreiðrið: bók um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur byggð á bréfum hennar.(Reykjavík: JPV 2006)
  • Matthías Viðar Sæmundsson, Héðinn, Bríet, Valdimar og Laufey: Fjölskylda og samtíð Héðins Valdimarssonar. (Reykjavík: JPV 2004)
  • Sigríður Th. Erlendsdóttir, Veröld sem ég vil: Saga Kvenréttindafélags Íslands 1907-1992. (Reykjavík: Kvenréttindafélag Íslands 1993)
  • Vilhjálmur S. Vilhjálmsson,  „Konan sem lagði fyrst á brattann“ (viðtal við Bríeti Bjarnhéðinsdóttur). Grær undan hollri hendi: Tuttugu og átta viðtöl og frásagnir. (Reykjavík: Setberg 1964), bls. 25-30
  • Vilhjálmur Þ. Gíslason, Blöð og blaðamenn 1773-1944. (Reykjavík: Almenna bókafélagið 1972), bls. 185