Merki Kvennasögusafns

Kvendoktorar

Íslenskir kvendoktorar

1926-2015

Hvað viltu vita?

Spurt og svarað

Hvenær gerðist það?

Ártöl og áfangar í kvennasögu

Kvennasöguslóðir

Gönguferðir um

Reykjavík

Alþjóðabaráttan fyrir kosningarétti

Kvenréttindafélag Íslands var stofnað í beinu framhaldi af för Bríetar Bjarnhéðinsdóttur til Norðurlandanna árið 1904, en þar komst hún í kynni við helstu kvenréttindakonur þeirra landa.

Alþjóðakosningaréttarsamtökin The International Woman Suffrage Alliance(IWSA) voru stofnuð í Washington árið 1902. Frumkvæðið átti Carrie Chapman Catt og var hún kjörin formaður samtakanna á fyrsta þingi þeirra í Berlín árið 1904.

Ísland gengur í samtökin
Sumarið 1904 var Bríet Bjarnhéðinsdóttir á ferðalagi um Danmörku, Noreg og Svíþjóð. Þar komst hún í kynni við kvenréttindakonur sem héldu sambandi við Bríeti eftir að hún kom heim. Carrie Chapman Catt frétti af Bríeti gegnum samtök sín og hóf bréfaskriftir til hennar með áeggjan um að stofna kosningaréttarfélag kvenna á Íslandi. Carrie bauð Bríeti einnig að sækja þing samtakanna í Kaupmannahöfn árið 1906 [nánar um þingin sem Bríet og Laufey sóttu] sem fulltrúi Íslands, jafnvel þótt ekkert kosningafélag kvenna væri starfandi á Íslandi. Bríet fór á fundinn sem fulltrúi Íslands og flutti þar erindi um hagi og réttarfarslega stöðu íslenskra kvenna.
     Bríet var að flestu leyti vel til þess fallin að hafa forgöngu um stofnun kosningaréttarfélags á Íslandi. Hún hafði nokkra reynslu af félagsmálum, hafði flutt opinberan fyrirlestur í Reykjavík og var gagnkunnug baráttu kynsystra sinna á Norðurlöndunum og þekkti persónulega margar af forystukonum hreyfingarinnar. Það sem þó vóg þyngst og gerði hana hæfari en flestar samtíðarkonur hennar hér á landi til að gegna forystu í slíku félagi var Kvennablaðið og sambönd hennar við fjölda fólks út um allt land vegna þeirrar útgáfu, en blað hennar var eitt útbreiddasta blað landsins um þær mundir.

Kvenréttindafélag Íslands stofnað
Haustið 1906 hafði Bríet tal af ýmsum konum í Reykjavík sem virtust hafa áhuga á stofnun kosningaréttarfélags kvenna. Sunnudaginn 27. janúar 1907 komu saman 15 konur að Þingholtsstræti 18 í Reykjavík, heimili Bríetar. Samþykkt var af öllum fundarkonum að stofna félag, Kvenréttindafélag Íslands.
     Markmið félagsins var eins og segir í 1. grein laga þess: „að starfa að því að íslenskar konur fái fullt stjórnmálajafnrétti við karlmenn, kosningarétt, kjörgengi svo og rétt til embætta og atvinnu með sömu skilyrðum og þeir.“ Með stofnun félagsins urðu þáttaskil; skipulögð barátta kvenna fyrir kosningarétti var hafin hér á landi.
     Eitt fyrsta viðfangsefni Kvenréttindafélags Íslands var að beita sér fyrir framboði kvenna við bæjarstjórnarkosningarnar í Reykjavík 24. janúar 1908. Konur kjósenda í bænum höfðu þá fengið kosningarétt og bættust í hóp fyrri kvenkjósenda sem voru ekkjur og ógiftar konur er stóðu fyrir búi eða áttu með sig sjálfar. Kvenfélög í bænum buðu fram sérstakan kvennalista í kosningunum 1908 og unnu mikinn sigur; fjórar konur settust í bæjarstjórn. Félög kvenna buðu fram til bæjarstjórnar til ársins 1918 og fulltrúar þeirra komu mörgu til leiðar.
    

Alþjóðanet kvenna
International Woman Suffrage Alliance átti beinan þátt í stofnun Kvenréttindafélags Íslands, sem og fjölda annarra kvenréttindafélaga um veröld alla. Forystukonum var falið að kynna boðskapinn og setja sig í samband við líklegar fylgiskonur við málstaðinn. Þing samtakanna voru að jafnaði haldin annað hvert ár og stóðu gjarnan í heila viku. Mikið var gert til þess að skemmta þingfulltrúum og skapa náin kynni þeirra í millum. Milli þinganna fóru konurnar í fyrirlestrarferðir og notuðu þá gjarnan tækifærið til heimsókna hver hjá annarri. Þannig byggðu samtökin upp alþjóðlegt stuðnings- og baráttunet kvenna.
Bríet Bjarnhéðinsdóttir sótti þingin 1906, 1913 og 1929. Dóttir hennar, Laufey Valdimarsdóttir sótti einnig nokkur þing, ýmist ein eða með Bríeti. Blað Bríetar, Kvennablaðið, flutti fréttir af gangi mála hjá systurfélögunum. Bríet þýddi einnig greinar úr blöðum systurfélaganna og kynnti útlenskar baráttukonur fyrir kynsystrum sínum á Íslandi.

Heimildir:
  • Auður Styrkársdóttir. 1994. Barátta um vald. Háskólaútgáfan. Einkum bls. 17-24.
  • Sigríður Th. Erlendsdóttir. 1993. Veröld sem ég vil. Kvenréttindafélag Íslands. Einkum bls. 53-69.
  • Rupp, Leila J. 1997. Worlds of Women. The Making of an International Women´s Movement. Princeton University Press.