Merki Kvennasögusafns

Kvendoktorar

Íslenskir kvendoktorar

1926-2015

Hvað viltu vita?

Spurt og svarað

Hvenær gerðist það?

Ártöl og áfangar í kvennasögu

Kvennasöguslóðir

Gönguferðir um

Reykjavík

Aðalheiður Hólm

Aðalheiður Hólm um Laufeyju Valdimarsdóttur

 

Aðalheiður Hólm var ein af stofnendum Starfsstúlknafélagsins Sóknar árið 1934 og varð fyrsti formaður þess, aðeins 18 ára gömul. Hún kynntist Laufeyju Valdimarsdóttur gegnum starf sitt fyrir Mæðrastyrksnefnd og sagði frá þeim kynnum í ævisögu sinni, Veistu, ef þú vin átt sem Þorvaldur Kristinsson skráði og kom út árið 1994. Hér eru birt nokkur valin brot.


„Á þessum ferðum mínum rakst ég stundum á miðaldra konu þar sem hún kom skyndilega fram úr myrkrinu, upp úr kjöllurum eða út úr húsasundum, nokkuð feitlagin og þung í spori. Ég kannaðist við hana í sjón, þetta var Laufey Valdimarsdóttir, nágranni minn í Þingholtunum. Ekkert skildi ég í því hvað hún var sífellt að ferðast þetta í myrkrinu og oft á tíðum komið fram undir miðnætti.
Svo gerðist það dag nokkurn að þau tilmæli bárust frá Laufeyju til okkar Sóknarkvenna að félagið skipaði fulltrúa í Mæðrastyrksnefnd. Það varð að ráði að ég tæki þátt í starfi nefndarinnar fyrir hönd Sóknar og kvöld eitt mætti ég á minn fyrsta fund í Þingholtsstræti 18. Laufey kom til dyra og bauð mér inn í fundarsalinn á neðri hæðinni. Bersýnilega höfðu þar áður verið tvær stofur sem nú höfðu verið gerðar að einum bærilegum fundarsal. Á efri hæðinni bjó hún sjálf ásamt móður sinni, Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, sem þá var nálægt áttræðu og hætt allri þátttöku í félagsmálum.
Í fundarsalnum voru saman komnar einar fimmtán konur og ekki laust við að sumar þeirra litu mig hornauga þegar ég birtist, tvítug stelpa á stuttu pilsi innan um virðulegar og þrekvaxnar peysufatafrúr. Laufey kynnti mig fyrir konunum, en margar þeirra kannaðist ég við úr bæjarlífinu því þær höfðu víða látið til sín taka. Svo var farið að ræða þau málefni sem lágu fyrir fundinum. Aðstoð við einstæðar mæður sem ekki höfðu náð að reka réttar síns, fjárstyrkir til heimila og fjáröflun á mæðradaginn. Húsráðandinn hafði framsögu í öllum þessum málum og lýsti því hvar brýnast væri að hjálpa og reyna að leggja lið. Það var fátt sem hún virtist ekki vita um olnbogabörn Reykjavíkur.
Nú skildi ég hvernig stóð á ferðum Laufeyjar um bæinn á kvöldin.“
(bls. 102-103)

.....

„Það var einu sinni eftir nefndarfund að Laufey hallaði sér að mér og spurði hvort ég vildi ekki þiggja kaffisopa hjá sér á loftinu, hana langaði að kynnast mér betur. Þetta varð upphafið að mörgum ógleymanlegum stundum yfir koníakstári og kaffi í bláum postulínsbollum sem hún sótti í hornskáp í litlu stofunni þeirra mæðgna. Svona leið tíminn stundum við samræður til klukkan þrjú og fjögur á nóttunni. Laufey spurði ekki um svefn ef hún komst í samkvæmisskap. Yfir bláu bollunum var aldrei rætt um málefni Mæðrastyrksnefndar, það tilheyrði neðri hæðinni, en hún talaði mikið um mannréttindi kvenna, þá virðingu sem konum ber. Svo rifjaði hún upp gamlar minningar, sagði frá ferðum sínum um Ísland á sérkennilegan og rómantískan hátt, því hún elskaði íslenska náttúru og sá hana á myndrænni hátt en aðrar manneskjur sem ég hef þekkt. Engan hef ég heyrt lýsa bláma íslenskrar náttúru eins og hún gerði. Stundum fór hún þá með vísu eftir sjálfa sig, „þetta flaug mér í hug þegar ég stóð þarna,“ sagði hún og spann svo frásögnina þindarlaust áfram. Talaði um allt það sem mig langaði til að reyna, talaði um námsárin sjö í Danmörku, ferðir sínar um Evrópu og endaði ævinlega í París. Það var borgin hennar. Samt fannst mér hún aldrei vera sá heimsborgari sem mér virtist bróðir hennar vera. Sjónarhóll hennar var íslenskur án þess að vera búralegur.
Ég vissi vel að eitt og annað var hvíslað í Reykjavík um ástir Laufeyjar og karlamál, en við töluðum aldrei um þau efni. Það var ekki fyrr en ritsafn Laufeyjar kom út, nokkrum árum eftir dauða hennar, að ég vissi að hún hafði ort ástarljóð. Aldrei hafði hún vitnað til þeirra í mín eyru. Hún var vinum sínum náin án þess að vera beinlínis opinská við þá.
Ég held að ég hafi aldrei kynnst manneskju sem mér hefur þótt eins töfrandi í list samræðunnar og Laufey Valdimarsdóttir. Þar fóru saman merkilegir vitsmunir og áreynslulaus fyndni sem samt var aldrei viðruð á kostnað eins eða neins, það ég heyrði. Að kunna bæði að hlusta og tala, hún hafði þessa list fullkomlega á valdi sínu og steig þar sama línudansinn og á fundunum á neðri hæðinni. Án þess að fipast.“ (bls. 106)