Merki Kvennasögusafns

Kvendoktorar

Íslenskir kvendoktorar

1926-2015

Hvað viltu vita?

Spurt og svarað

Hvenær gerðist það?

Ártöl og áfangar í kvennasögu

Kvennasöguslóðir

Gönguferðir um

Reykjavík

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir (1921-1994) fæddist á Efri-Steinsmýri í Meðallandi þann 8. ágúst 1921. Foreldrar hennar voru Bjarnfreður Ingimundarson, bóndi og Ingibjörg Sigurbergsdóttir húsfreyja. Aðalheiður átti 18 systkini, sjö hálfsystkini samfeðra og 11 alsystkini.

Hún vann sem vinnukona í Reykjavík, fiskvinnslukona í Vestmannaeyjum á stríðsárunum, vann á sjúkrahúsinu í Eyjum 1944-49, var verkakona í Reykjavík 1958-59, bréfberi í Reykjavík 1960-63, húsfreyja í Köldukinn í Holtum 1963-74 og verkakona í Reykjavík 1974-76.

Aðalheiður var formaður Verkakvennafélagsins Snótar í Vestmannaeyjum 1945-49, Þá sat hún í stjórn Sósíalistafélags Vestmannaeyja, formaður Starfsmannafélagsins Sóknar 1976-87, sat í stjórn ASÍ og var alþingismaður Reykvíkinga fyrir Borgaraflokkinn 1987-91. Hún birti skáldsöguna Myndir úr raunveruleikanum árið 1979 og Inga Huld Hákonardóttir skráði ævisögu hennar Lífssaga baráttukonu sem kom út árið 1985. 

Hún giftist Antoni Júlíus Guðjónssyni (1907-1991) sjómanni og smiði. Þau áttu fimm börn: Ingigerður (1945), Steinunn Birna Magnúsdóttir (ættleidd 1947, kjörforeldrar hennar voru hjónin Hjördís Guðmundsdóttir, (1907-1998) og Magnús Sigurbergsson (1902-1975)), Hlynur Þór (1949-1951), Hlynur Þór (1952), Guðmundur Bergur (1956). Aðalheiður og Anton veiktust af berklum og voru á Vífilsstöðum um hríð, hún frá 1949 og fluttist hún þá til Reykjavíkur. Aðalheiður og Anton skildu um 1962. Hún giftist svo Guðsteini Þorsteinssyni (1918) verkamanni árið 1968.

Aðalheiður var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1. janúar 1980. Hún lést 26. apríl 1994.

Aðalheiður var hluti af nefndinni sem undirbjó kvennafrídaginn 24. október 1975. Þar flutti eftirminnilega ræðu á sem Kvennasögusafn varðveitir afrit af og hægt er að lesa hér.

Heimildir:

Inga Huld Hákonardóttir, Lífssaga baráttukonu, Reykjavík 1985
Morgunblaðið 27. apríl 1994.
Morgunblaðið 13. nóvember 2013.
Vefur Alþingis
Vefurinn Heimaslóð.is
KSS 1. Kvennafrídagurinn 1975. Einkaskjalasafn.


Kvennasögusafn Íslands tekur við skjalasöfnum - bréfum, dagbókum o.þ.h. - frá einstaklingum og félagasamtökum. Hafðu samband ef þú vilt afhenda skjöl.