Jun 29, 2020

Ragnhildi Hólmgeirsdóttur þakkað


Kvennasögusafn þakkar Ragnhildi Hólmgeirsdóttur kærlega fyrir vel unnin störf á safninu í vetur þar sem hún leysti af vegna fæðingarorlofs. Ragnhildur kvaddi safnið með birtingu á eftirminnilegri grein í nýútkominni Sögu þar sem hún skrifar um skjalasafn Elínar Briem. Í greininni „Frá kommóðu til Kvennasögusafns“ fjallar hún um oft torfæra leið einkabréfa kvenna á skjalasöfn og hvernig bréfin geta varpað ljósi á söguna ef þau berast og eru gerð aðgengileg til rannsókna.

„Bréf Margrétar Sigurðardóttur til Elínar Briem varpa ljósi á skoðanir og reynslu kvenna frá þeirri byltingu sem varð á híbýlum Íslendinga þegar þjóðin flutti úr torfbæjum í steinhús. Áhrif annarra tækninýjunga, svo sem símans og útvarpsins, birtast einnig í þessum bréfum. Er þá ekki minnst á þá innsýn í fjölskyldulífið á Höskuldsstöðum sem bréfin veita. Þó varðveitir skjalasafnið ekki nema helming þessara bréfaskipta sem héldu lífi í vináttu kvennanna áratugum saman þrátt fyrir að miklar fjarlægðir skildu þær að. Hvaða heildarmynd gæti komið í ljós ef við hefðum einnig svör Elínar? ...
... Er ef til vill einhvers staðar á Skagaströnd að finna kommóðu, skrifborðsskúffu eða gamlan plastpoka fullan af gulnuðum pappír sem enginn veit almennilega hvað á að gera við?“

Ragnhildur.png