Nov 3, 2025

Kjörgripur Landsbókasafns í nóvember


VIÐ ERUM MARGAR, 50 ára afmælissýning Kvennasögusafns, opnaði í Þjóðarbókhlöðunni þann 17. október 2025. Á sýningunni eru teknar fram 18 konur úr safnkosti Kvennasögusafns sem unnu margvísleg störf á 20. öldinni. Ein þeirra var Ingibjörg Guðlaugsdóttir (1887–1971) og eru skjöl hennar kjörgripur Landsbókasafns í nóvember.

Ingibjörg fæddist að Sogni í Kjós. Hún var vinnukona í heimasveit sinni sem ung kona en rúmlega þrítug réðist hún í vist til frænku sinnar, Guðbjargar Guðmundsdóttur. Guðbjörg var gift Páli Kolka, sem þá var nýráðinn héraðslæknir í Vestmannaeyjum, og fylgdi Ingibjörg fjölskyldu þeirra í hálfa öld. Hún bjó á heimili þeirra í Vestmannaeyjum og síðar á Blönduósi en heimsótti æskuheimili sitt í Kjós á sumrin. Ingibjörg lagði sitt af mörkum við barnauppeldi og heimilishald, hreingerningar, þvotta og sauma, en aðstoðaði einnig Pál við læknisstörfin, ekki síst þegar þurfti að svæfa sjúklinga fyrir aðgerðir. Um meira en tveggja áratuga skeið annaðist hún flestar svæfingar á sjúkrahúsinu á Blönduósi. Páll skrifaði að hún hefði verið lipur svæfari, lagin við að vinna traust sjúklinga og lina ótta þeirra.

Ljósmyndin af Ingibjörgu er varðveitt á Þjóðminjasafni.

Ingibjörg Guðlaugsdóttir Mbl1-1303 (1).jpg