Salóme Þorkelsdóttir fagnar 98 ára afmæli sínu í dag. Kvennasögusafn óskar henni hjartanlega til hamingju með daginn!
„Salóme (f. 1927) var kjörin forseti Alþingis, fyrst kvenna, árið 1991. Hún sat á Alþingi frá 1979-1995, þar af sem forseti Efri deildar 1983- 1987 og 2. varaforseti Efri deildar 1987-1988. Salóme var 1. varaforseti Sameinaðs þings 1988-1991, en þá var hún kjörin forseti Alþingis. Hún gegndi því embætti til ársins 1995 er hún lét af þingstörfum.
Salóme sat í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 1973-1987 og frá 1989. Hún sat í stjórn Kvenfélags Lágafellssóknar 1963-1977, fyrst sem gjaldkeri og síðar varaformaður. Salóme var fyrsti varamaður í hreppsnefnd Mosfellshrepps 1962-1966 og aðalmaður 1966-1982. Hún var varaoddviti 1978-1981 og oddviti 1981- 1982. Salóme sat í stjórn Sjálfstæðisfélags Þorsteins Ingólfssonar 1969-1976 og Sjálfstæðisfélags Mosfellinga 1976-1978. Hún var formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Kjósarsýslu 1972-1980.
Salóme sat í stjórn Samtaka sveitarfélaga í Reykjanesumdæmi 1975-1979 og í fulltrúaráði Sambands íslenskra sveitarfélaga 1978-1982. Hún var formaður stjórnskipaðrar nefndar um samstarf heimila og skóla um varnir gegn slysum 1983-1987. Salóme var fulltrúi Íslands í þingmannasamtökum Norður-Atlantshafsríkjanna 1987- 1991. Hún var varafulltrúi í Norðurlandaráði 1983-1988. Salóme var forseti Soroptimistasambands Íslands frá 1996. Hún var sæmd stórriddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu 1993.“
Texti úr bók Kvennasögusafns Ártöl og áfangar í sögu íslenskra kvenna (1996) sem er aðgengileg í stafrænum aðgangi.