Stafrænar endurgerðir

Tímarit.is
Dagblöð og tímarit frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi
Handrit.is
Samskrá íslenskra handrita með mynduðum eintökum
Bækur.is
Stafræn endurgerð íslenskra bóka
Íslandskort.is
Íslandskort og ágrip af kortasögu
Hljóðsafn
Stafræn afrit af tónlist og viðtöl

Gagnasöfn

Skemman
Safn námsritgerða og rannsóknarita
Rafhlaðan
Rafrænt varðveislusafn
Vefsafnið
Íslenskir vefir frá 1996 til dagsins í dag
Leitir.is
Samleit í gagnasöfnum og samskrá bókasafna
Finna tímarit
SFX-leit að tímaritum í áskrift safnsins
Hvar.is
Landsaðgangur að tímarita- og gagnasöfnum

Afgreiðslutími

Kvennasögusafn er opið alla virka daga frá kl. 10:00 til 15:00.

Vinsamlegast hafið samband ef áhugi er á að heimsækja safnið utan auglýsts opnunartíma.

» Forsíða » Kvennasaga » Nýja kvennahreyfingin » Rauðsokkkahreyfingin

Rauðsokkkahreyfingin

Vissir þú að...

 • … konur fengu ekki kosningarétt í Sviss fyrr en 1971?
 • … Ingibjörg H. Bjarnason var fyrsta þingkona okkar Íslendinga?
 • … Pillan var tekin á lyfjaskrá á Íslandi árið 1967?

Rauðsokkahreyfingin (Rauðsokkur, Rauðsokkar)

Í lok apríl 1970 kom saman hópur ungra kvenna í kjallara Norræna hússins til að ræða stöðu kvenna á Íslandi og aðgerðir til að vekja almenning. Fyrr í apríl hafði danskur kvennahópur er kallaði sig Rødstrømperne þrammað eftir Strikinu í Kaupmannahöfn, skrýddur risabrjóstum, gríðarlegum höttum, gerviaugnahárum og rauðum sokkum. Þessi aðgerð vakti gífurlega athygli fjölmiðla, einnig hinna íslensku. Fréttir höfðu einnig borist af aðgerðum kvenna prýddum rauðum sokkum í New York, en sá hópur kallaði sig New York Redstockings og tók til starfa 1968. Hinn óhefðbundni hollenski hópur Dolle Mina sem kom fram á sjónarsviðið í byrjun árs 1970, vakti einnig mikla athygli.

Þann 1. maí hvatti hópurinn sem hittist í kjallara Norræna hússins konur til að mæta í göngu verkalýðsfélaganna í Reykjavík og auglýstu í útvarpinu: „Konur á rauðum sokkum! Komið í 1. maí gönguna.“ Konur báru risastóra styttu af konu í göngunni með stórum borða strengdan yfir bumbuna. Á honum stóð: Manneskja - ekki markaðsvara. Þar var kynnt til sögunnar eitt helsta baráttumál Rauðsokkahreyfingarinnar sem stofnuð var með fjölsóttum kynningarfundi 19. október 1970 í Norræna húsinu.

Rauðsokkur stefndu að því að vekja með öllum ráðum athygli á bæði augljósu og földu misrétti kynjanna, svo og kúgun sem ætti sér rætur í þjóðfélagsgerð og fjölskylduhefðum. 1972 fluttu rauðsokkur 10 þætti í útvarpið sem fjölluðu m.a. um barneignir, getnaðarvarnir og fóstureyðingar, barnaheimili og barnauppeldi og heimahúsmæður og mat á heimilisstörfum. Sumir þáttanna vöktu heitar umræður og hneykslan, enda um mikil hitamál að ræða.

Þættirnir voru fluttir undir nafninu ,,Ég er forvitin -rauð", en Forvitin rauð varð nafn á blaði sem hreyfingin hóf að gefa út árið 1972, það fyrsta fyrir greiðsluna fyrir útvarpsþættina. Þættirnir voru allir unnir í hópvinnu , eins og venja var hjá rauðsokkum. Skipulag rauðsokka stríddi framan af gegn hefðbundnu félagaformi, enda töldu meðlimir það vera form sem hefti umræður og skoðanaskipti. Hreyfingin kaus enga/nn (karlmenn gátu líka verið meðlimir) formann, hélt engar fundargerðarbækur og þeir hópar sem upp spruttu gerðu það af sjálfdáðum.

Það mál sem mest braut á rauðsokkum var fóstureyðingarmálið. Eitt af hjartans málum rauðsokka var opin umræða og fræðsla um kynferðismál. Áhersla var lögð á að konan ætti ein að ákveða hvort fóstri yrði eytt. Ein rauðsokka átti sæti í nefnd þeirri er samdi frumvarp til nýrra laga um fóstureyðingar og getnaðarvarnir sem lagt var fram á þingi haustið 1973. Þar var réttur konunnar viðurkenndur. Málið varð strax mikið hitamál og fóru leikar svo að frumvarpið var ekki samþykkt. Þau lög sem við búum enn við voru samþykkt árið 1975 og þar er réttur konunnar ekki viðurkenndur, ólíkt því sem hugur rauðsokka stefndi til, og ólíkt því sem tíðkast í langflestum nágrannalöndum okkar.

Rauðsokkur beittu stundum óhefðbundnum aðferðum til að vekja athygli á misréttinu. Ein þeirra var mótmæli við fegurðarsamkeppnum þar sem þess var krafist að hætt yrði að nota kvenlíkamann í auðgunarskyni og í auglýsingum. Fyrstu, en ekki síðustu, mótmælin urðu í desember 1970. Fegurðarsamkeppnir lögðust af hér á landi á tímabili, einkum vegna mótmælanna.

Árið 1974 urðu vatnaskil í starfi rauðsokka. Á ráðstefnu sem haldin var það ár var samþykkt róttæk stefnuyfirlýsing og gengu þá nokkrar úr Rauðsokkahreyfingunni í mótmælaskyni. En þar var einnig varpað fram þeirri hugmynd að konur gerðu verkfall einn dag á kvennaári Sameinuðu þjóðanna árið 1975. Hugmyndin að kvennafrídeginum var fædd.

Rauðsokkahreyfingin starfaði til ársins 1982 þegar ný samtök kvenna í Reykjavík og á Akureyri komu fram og buðu fram sérlista til sveitarstjórnarkosninga. Margar rauðsokkur kusu að starfa með hinum nýju samtökum og Rauðsokkahreyfingin hætti störfum.

 • KVENNASÖGUSAFN ÍSLANDS
 • Kt. 640680-0169
 • Arngrímsgötu 3
 • 107 Reykjavík
 • Sími: 525 5779
 • Netfang:
  kvennasogusafn (hjá) landsbokasafn.is

Kvennasögusafn Íslands miðlar þekkingu um kvennasögu og rannsóknir og aðstoðar við öflun heimilda. Það er eina safnið sinnar tegundar á Íslandi. Safnið er sérstök eining í Landsbókasafni, Þjóðarbókhlöðu.