Frjálst er í fjallasal

Lag: Frjálst er í fjallasal
Texti: Valborg Bentsdóttir

Hvers vegna kvennafrí?
Konurnar fagna því,
takast mun allsherjar eining.
Vanmetin voru störf,
vinnan þó reyndist þörf.
Aðeins í kaupi kyngreining.

Nú á að brjóta í blað
bráðlega sannast það,
við sigrum, ef saman við stöndum.
Konan á vilja og vit,
vilji hún sýna lit.
Tengjumst því baráttuböndum.

Metin skal maðurinn,
manngildi er hugsjónin.
Enginn um ölmusu biður.
Hljómar um fjöll og fjörð:
Frelsi skal ríkja á jörð,
jafnrétti, framþróun, friður.