Drekkingarhylur

19 juni 35

Á þjóðveldisöld var dauðarefsing ekki til í íslenskum lögum. Menn voru dæmdir til sektar, til skóggangs eða útlegðar. Aftökur voru næsta fátíðar fram eftir öldum og væri um dauðasök að ræða var henni gjarnan skotið til „konungs náðar“, sem fól í sér lausn gegn sektum. Með siðaskiptunum og fyrir vaxandi þýsk áhrif á dönsk lög færðust dauðadómar mjög í aukana, og ekki síst eftir að Stóridómur var tekinn í lög árið 1565. Eftir það má kalla að dauðarefsingum hafi verið beitt á Alþingi hvert sumar, og stundum fjölmörgum, þar til árið 1734, er líflátshegning fyrir þjófnað var afnumin. Þó var líflátsrefsingum enn beitt á Alþingi fyrir ýmsar sakir langt fram eftir 18. öld, þar á meðal á konur fyrir meint skírlífsbrot og hórdóm.

Fyrsta konan sem hlaut þessi örlög var Þórdís Halldórsdóttir frá Sólheimum í Skagafirði. Hinir dönsku dómarar dæmdu hana seka árið 1590 um ljúgvitni þar sem hún hefði svarið sig hreina mey er hún væri í raun ófrísk. Síðan hefði hún neitað að segja til föðurins en að lokum borið að mágur hennar væri faðirinn. Dómararnir sögðust ekki finna nein merki þess að hann hefði komist yfir hana með göldrum og dæmdu hana til drekkingar. Mótmæli bræðra Þórdísar og annarra karlkyns ættingja voru höfð að engu. Á sama tíma var einnig drekkt konu frá Austurlandi sem bar að frændi sinn væri faðir að barni því er hún hafði alið. Frændinn sór af sér faðernið, en bæði voru dæmd sek, hann höggvinn og henni drekkt. Síðustu konunni var drekkt í hylnum árið 1749.

Drekkingarhylur var áður dýpri en hann er nú, líkari svelg en hyl, með þröngu klettahafti. Haftið var sprengt er brú var lögð yfir Öxará. Konur sem átti að drekkja voru leiddar fram á klettahaftið og troðið þar með valdi í poka sem steypt var yfir höfuðið. Reipi var bundið um þær miðjar og þær sennilega látnar standa nokkra stund á klettabríkinni —því aftökur voru ekki aðeins refsing fyrir meint ódæði heldur ekki síður víti til varnaðar. Því næst var þeim hrint fram af og haldið niðri í vatninu með priki uns ekkert hreyfðist meir.

Drykkjarvatn var tekið úr Öxará meðan þinghald stóð, en ekki fer sögum af því að dómurum hafi klígjað við vatninu þrátt fyrir aftökurnar i hylnum.

Heimildir: 
Björn Th. Björnsson. Þingvellir. Staðir og leiðir. 1984. 
Björn Þorsteinsson. Thingvellir. Iceland's National Shrine. 1986.

Sjá einnig:
Anna Sigurðardóttir, „Í drekkingarhylnum“, Vera, 3. tbl. 1982, bls. 28-29.
Diljá Auður Kolbeinsdóttir Gray, Brotakonur fortíðar, píslarvottar samtímans? Drekkingarhylur rannsakaður út frá kyngervi minningaBA-ritgerð í sagnfræði við Háskóla Íslands, 2019.
Inga Huld Hákonardóttir, Fjarri hlýju hjónasængur. Öðruvísi Íslandssaga, Reykjavík 1992.
Kristín Heiða Kristinsdóttir, „Undir broddstaf böðulsins,“ Vera 4. tbl. 2000, bls. 44-46.
Már Jónsson,  „Hvað er Stóridómur?“, Vísindavefurinn, 23. ágúst 2004.
Már Jónsson,  „Hversu mörgum konum var drekkt í Drekkingarhyl og fyrir hvað?“, Vísindavefurinn, 29. júní 2016.

*Auður Styrkársdóttir tók saman. Fyrst birt 6. júní 2007
*Síðast uppfært 4. mars 2021