'68 og Perla Fáfnisdóttir

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Útlitsdýrkun»  '68 og Perla Fáfnisdóttir
Jun 25, 2005

Minningarathöfn í Hólavallakirkjugarði 18. júní 2005


Kvennasamtök gengust fyrir minningarathöfn í Hólavallakirkjugarði laugardaginn 18. júní 2005 til þess að minnast kosningaréttar íslenskra kvenna.

Hallfríður Ólafsdóttir, flautuleikari, og Marta Guðrún Halldórsdóttir, söngkona, fluttu lög og borgarstjóri Reykjavíkur, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, flutti ávarp. Að því búnu var gengið að legstöðum neðangreindra baráttukvenna og blómsveigur lagður á þá (tölurnar fyrir aftan nöfnin vísa á grafreiti þeirra):

Bríet Bjarnhéðinsdóttir (1856-1940) T-241
Guðrún Lárusdóttir (1880-1938) V-108
Guðrún Pétursdóttir (1878-1963) H-2 r.43
Ingibjörg H. Bjarnason (1868-1941) R-412
Jónína Jónatansdóttir (1869-1946) V-326
Katrín Skúladóttir Magnússon (1858-1932) T-522
Laufey Valdimarsdóttir (1890-1945) T-241
Laufey Vilhjálmsdóttir (1879-1960) B-32 r.2
Ólafía Jóhannsdóttir (1863-1924) N-505
Sigríður Björnsdóttir (1879-1942) Z-228
Sigríður Hjaltadóttir Jensson (1860-1950) L-512b
Sigþrúður Friðriksdóttir (1830-1912) Z-325
Theódóra Thoroddsen (1863-1954) Z-505
Þórunn Jónassen (1850-1922) L-209
Þorbjörg Sveinsdóttir (1827-1903) N-505

---
Ljósmyndir: Siv Friðleifsdóttir, alþingismaður.

18.juni218.juni118.juni318.juni4


Ávarp Steinunnar Valdísar, borgarstjóra:

Ágætu gestir – kæru konur

Saga íslenskrar kvennahreyfingar og saga Reykjavíkur eru samofnar. Við erum hér í Hólavallakirkjugarði til að heiðra frumkvöðla baráttunnar fyrir kvenréttindum og kosningarétti, lýðræði og lífsgæðum fyrir alla íbúa þessa lands. Þær voru líka baráttukonur fyrir betri Reykjavík, enda bjuggu þær flestar hér í bænum og lögðu honum allt það lið sem þær gátu. Þær skópu þá Reykjavík sem okkur þykir svo vænt um – þær skópu það Ísland sem við viljum gera ennþá betra.

Ég hef oft hugsað til þess hvað við, kynslóðir kvenna sem á eftir hafa komið, eigum þeim mikla skuld að gjalda. Þeim konum sem við heiðrum sérstaklega hér í dag, en líka öllum hinum sem ekki áunnu sér jafn sterkt nafn í sögunni, en stóðu þeim þétt að baki, studdu þær, kusu þær, störfuðu með þeim. Ég nefni aðeins nokkrar.

Hér er Þorbjörg Sveinsdóttir ljósmóðir, sem var skipuð embættisljósmóðir í Reykjavík 1864 og sá um verklega kennslu ljósmóðurnema á heimili sínu. Hún var einn aðalhvatamaðurinn að stofnun Hins íslenska kvenfélags 1894, en það félag var mikilvirkt í því að safna fé til stofnunar Háskóla Íslands. Á heimili hennar við Skólavörðustíginn var næstum óslitinn þjóðfundur um landsins gagn og þar tók hún ríkan þátt í að brýna gesti sína til allra góðra verka sem til framfara horfðu.

Hér er líka systurdóttir hennar, Ólafía Jóhannsdóttir, sem fyrst kvenna tók fjórða bekkjarpróf í Lærða skólanum utanskóla af því hún mátti ekki – stelpan – sitja skólann innanum strákana, og var neitað um stúdentsprófið ári seinna. Hún átti frumkvæðið að því að bók John Stuarts Mills, Kúgun kvenna, var þýdd á íslensku og gefin út aldamótaárið 1900. Hún ritstýrði Blaði íslenskra kvenna, skrifaði greinar og var óþreytandi áróðurskona fyrir kvenréttindum. Eftir að hún flutti til Noregs 1903 varð hún þjóðþekkt þar í landi fyrir líknarstörf sín, einkum í þágu vændiskvenna og annarra ógæfukvenna.

Theódóra Thoroddsen skáldkona sem lengi bjó í Vonarstrætinu beint á móti Ráðhúsinu hvílir líka hér. Hún stofnaði Lestrarfélag kvenna ásamt fleiri konum árið 1911 og lét sig hvergi vanta þar sem barist var fyrir réttindum kvenna og öðrum framfaramálum.

Fyrstu konurnar í bæjarstjórn Reykjavíkur eru nálægar. Kvennaframboðið 1908 er okkur í fersku minni, enda sótti kvennaframboðið í Reykjavík 1982, og síðar Kvennalistinn þangað styrk og innblástur. Hvílíkt þrekvirki unnu þær ekki kempurnar – Bríet Bjarnhéðinsdóttir, Guðrún Björnsdóttir, Katrín Magnússon og Þórunn Jónassen sem voru kjörnar inn í bæjarstjórn Reykjavíkur af kvennalistanum 1908. Eins og við vitum fengu þær svo mikið fylgi að fleiri konur hefðu komist inn ef þær bara hefðu verið fleiri á listanum. Um Bríeti sérstaklega, en líka hinar þrjá bæjarstjórnarkonurnar væri hægt að hafa langt mál, enda kemur nafn Bríetar fyrst í hugann þegar minnst er þeirra sem mestan hlut áttu í því að koma á almennum kosingarétti og kjörgengi kvenna 1915. Fyrsta blaðagreinin eftir konu sem birtist hér á landi var eftir hana - Nokkur orð um réttindi og menntun kvenna, og var hún birt í Fjallkonunni í tvennu lagi, 5. og 22. júní 1885 undir dulnefninu Æsa. Þessa dagana eru því 120 ár síðan greinin birtist. Hún var líka sú, sem fyrst kvenna hélt opinberan fyrirlestur tveimur árum síðar, en hann fjallaði um hagi og réttindi kvenna. Hún varð fyrsti formaður Kvenréttindafélagsins 1907 og einn af stofnendum Verkakvennafélagsins Framsókn. Eitt það merkilegasta við Bríeti var að henni tókst að brjóta konur úr einangrun íslenska samfélagsins. Hún stofnaði til tengsla við samtök kvenréttindakvenna á Norður-löndunum og sat mörgum sinnum alþjóðleg þing kvenna sem fulltrúi Kvenréttindafélags Íslands.

Ég gæti nefnt svo margar fleiri. Ingibjörgu H. Bjarnason, sem fyrst kvenna tók sæti á Alþingi, Guðrúnu Lárusdóttur sem sat í áraraðir í fátækranefnd Reykjavíkur og kynntist þannig vel kjörum að bágindum fátæks alþýðufólks, kvenna og barna þeirra. Jónínu Jónatansdóttir verð ég líka að nefna, en hún var fyrsti formaður Verkakvennafélagsins Framsóknar.

Ég sagði í upphafi að saga íslenskra kvenna og hreyfingar þeirra fyrir réttindum kvenna væri samofin sögu Reykjavíkur. Það er sama hvar borið er niður. Vatnsmálin voru baráttumál kvenna. Að tryggja hreint vatn í lokuðum leiðslum en ekki opnum brunnum, sem margir voru mengaðir. Að koma skolpinu úr opnum rennum á götunum sömuleiðis. Barnafræðslan, heilbrigðismálin, Landspítalinn, mæðra- og ungbarna-verndin, háskólamenntunin, lýsingin í bænum – allt voru þetta mál sem þessar konur börðust fyrir. Sum vörðuðu landsstjórnina, en ótrúlega mörg bæjarfélagið, næsta nágrenni íbúanna sjálfra og grunnþjónustuna. Það er erfitt að ímynda sér í dag að í þá daga var stórmál að fá góða götu lagða fyrir þvottakonurnar sem báru þvottinn á bakinu inn í Laugar. Minnumst þeirra þegar við göngum Laugaveginn. Og fátækramálin, atvinnuleysið, húsa-kosturinn, þrældómurinn. Allt skyldi undan láta fyrir djörfung og dug þessara kvenna.

Kosningarétturinn var lykillinn að öllum þessum umbótum. Þó kosningaréttur kvenna í sveitarstjórnar-kosningum sé að stofni til 123 ára gamall, semsagt frá 1882, þegar ekkjur og aðrar ógiftar eignakonur yfir 25 ára aldri fengu kosningarétt, þá náði hann ekki til allra kvenna og ekki til kosninga til alþingis. Á þessu ári fögnum við 90 ára afmæli kosningaréttar kvenna í alþingiskosningum, en munum samt að 1915 fengu aðeins konur 40 ára og eldri kosningarétt, en aldurinn skyldi lækka um eitt ár næstu 15 árin þar til hann skyldi staðnæmast við 25 ár. Kosningarétturinn eins og hann er í dag kom í bútum á löngum tíma, frá 1882, og bæði kosningarétturinn og kjörgengið kom alltaf fyrst á vettvangi sveitarstjórnanna – landsmálin, alþingi og landsstjórnin voru alltaf á eftir.

Enda var bæjarstjórn Reykjavíkur fyrsti pólitíski valdavettvangur kvenna á Íslandi. Kvennaframboðið 1908 fól í sér fyrsta stjórnmálasigur kvenna á vettvangi almannavaldsins.

Ég er stolt af því að borgarstjórn Reykjavíkur geymir þessa sögu, á þessum grunni hvílir Reykjavík enn þann dag í dag – og ég leyfi mér að vona að við sem förum með almannavaldið í Reykjavík í dag séum verðugir arftakar og merkisberar þeirra átján kvenna sem við heiðrum hér í dag.

Þökk sé þeim – ég færi þeim þakkir borgarstjórnar Reykjavíkur og borgarbúa allra.

Til baka

Fyrri síða Klæði

Næsta síða Arfleifð