Selma Jónsdóttir aldarminning

Selma JónsdóttirSelma Jónsdóttir (22. ágúst 1917 – 5. júlí 1987) var fyrsti Íslendingurinn til að ljúka prófi í listfræði (1944), fyrsti forstöðumaður Listasafn Íslands (1950-1987) og fyrsta konan sem hlaut doktorsnafnbót frá Háskóla Íslands (1960). 
 

Greinin hér að neðan birtist í Morgunblaðinu 22. ágúst 2017, bls. 24, fyrir tilstilli Safnahúss Borgarfjarðar. Garðar Halldórsson og Gerður Jónsdóttir eru höfundar greinarinnar.

Selma Jónsdóttir – Frumkvöðull í íslensku listalífi

Selma fæddist í Borgarnesi 22. ágúst 1917, yngst barna kaupmannshjóna í Borgarnesi, þeirra Helgu Maríu Björnsdóttur frá Svarfhóli, Stafholtstungum, og Jóns Björnssonar frá Bæ, Bæjarsveit.

Selma var skírð Sigþrúður Selma en notaði ávallt aðeins seinna nafnið. Hún ólst upp við gott atlæti, stóran frændgarð í uppsveitum Borgarfjarðar svo og glaðværð á æskustöðvunum í Borgarnesi. Það varð henni gott veganesti að vera alin upp á menningarheimili þar sem gestagangur var mikill enda mikil umferð innlendra sem erlendra ferðamanna um Borgarnes á fyrri hluta 20. aldar. Heimili kaupmannshjónanna var í þjóðbraut og opið fjölmörgum góðum vinum sem þar áttu leið um. Selma giftist árið 1955 dr. Sigurði Péturssyni, gerlafræðingi, sem síðar varð forstöðumaður gerlarannsóknarstofu Fiskifélags Íslands síðar Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Þau voru barnlaus.

Út í heim

Selma fór til náms við Verslunarskóla Íslands í Reykjavík og lauk þaðan prófi árið 1935. Síðan lá leiðin til Þýskalands en þar lagði hún stund á þýsku og þýskar bókmenntir í Hamborg og Heidelberg. Árin 1937-39 dvaldist hún aftur í Borgarnesi við ýmis störf hjá Verslunarfélagi Borgarfjarðar, við verslunina sem faðir hennar átti og rak.

Hún hugðist fara aftur utan haustið 1939 en heimsstyrjöldin síðari kom í veg fyrir það. Sú ferð dróst til ársins 1941 en þá lá leiðin til Bandaríkjanna þar sem hún lagði stund á listasögu. Fyrst við Berkley-háskólann í Kaliforníu en síðan við Columbia-háskólann í New York. Auk listasögu las hún heimspeki, mannfræði o.fl. og lauk BA-prófi í listasögu við Columbia-háskólann 1944.

Því næst fór Selma til Englands þar sem hún stundaði masternám við Warburg Institute í London. Þar kynntist hún miðaldalist og heillaðist af henni. Lokaverkefni hennar hét „The portal of Kilpeck Church, its place in English romanesque Sculpture“ og fjallaði um höggmyndir úr steini í Kilpeckkirkju í Herefordshire á Englandi. Sýndi Selma fram á að höggmyndirnar væru, ásamt höggmyndum úr nálægum kirkjum, verk myndhöggvara sem störfuðu í því héraði og mynduðu ákveðna skólastefnu.

Árið 1949 lauk hún síðan MAprófi í listasögu frá Columbiaháskólanum í New York. Var Selma fyrst Íslendinga til að ljúka háskólaprófi í listfræði og starfa við fræðigrein sína hérlendis.

Listasafn Íslands

Árið 1950 var Selma ráðin að Listasafni Íslands, sem þá var til húsa í byggingu Þjóðminjasafnsins við Suðurgötu. Var hún einna fyrst kvenna til að veita stofnun forstöðu á Íslandi og stýrði síðan vexti og uppbyggingu Listasafnsins í nærfellt fjóra tugi ára. Hún var fastráðin sem umsjónarmaður safnsins 1953 og skipuð fyrsti forstöðumaður þess árið 1961.

Með miklum metnaði byggði Selma upp starfsemi Listasafnsins frá grunni. Hún var víðlesin í listasögu og hafði að mati margra samferðamanna næmt auga jafnt fyrir eldri list sem samtímalist. Sem forstöðumaður Listasafnsins og formaður safnráðs lagði hún línurnar um varðveislu verka, innkaup á samtímalist og uppsetningu á vönduðum yfirlitssýningum þar sem helstu listamenn þjóðarinnar voru kynntir. Allur undirbúningur og frágangur varðandi slíkar sýningar var vandaður í hvívetna og og störf Selmu einkenndust af nákvæmum vinnubrögðum og góðri yfirsýn yfir íslenska myndlist.

Þátttaka í listrænu samfélagi

Selma hafði sterka nærveru, hún var heimsborgari með mikla útgeislun, létt í lund, glettin, einlæg og hlý en hreinskilin ef því var að skipta og fylgin sér. Hún fór létt með að laða að sér góða vini og trausta samstarfsmenn en á meðal þeirra voru margir fræðimenn og fremstu listamenn Íslands á 20. öld. Flest hennar áhugamál snerust um starf hennar og við- fangsefni því tengdu. Hugurinn snerist um kynningu á íslenskri myndlist og að vegur Listasafns Íslands yrði sem mestur. Til að ná fram markmiðum sínum þurfti hún oftar en ekki að beita eðlislægri útgeislun og hyggindum.

Smekkvísi var Selmu í blóð borin og þegar traust menntun í fagurfræðum bættist við var ekki að undra þótt allt hennar umhverfi yrði fyrir áhrifum af því. Hún bjó sér og Sigurði glæsilegt og listrænt heimili þar sem gamlir nytjahlutir og nú- tímalist mættust þannig að hver hlutur studdi annan. Heimilið var listrænt, fágað og ósjaldan notaleg umgjörð utan um góðra vina hóp.

Rannsóknir

Meðfram starfi við Listasafnið vann Selma stöðugt að rannsóknum á íslenskri miðaldalist. Doktorsritgerð sína, Býzönsk dómsdagsmynd í Flatatungu, (útg. 1959) varði hún við Há- skóla Íslands í janúar 1960 og varð fyrst íslenskra kvenna doktor þaðan.

Ritgerðin fjallar um myndskurð á fjalarbútum frá Bjarnarstaðahlíð, varðveittum í Þjóð- minjasafni Íslands, Selma færði rök fyrir því að fjalirnar væru brot úr stórri veggmynd sem nú er talið að hafi upprunalega verið í Hóladómkirkju. Með þessu verki skipaði hún sér í röð helstu fræðimanna hérlendis í miðaldalist Íslendinga. Fram að því höfðu þessi fjalabrot verið ráðgáta sem margir höfðu glímt við án árangurs. Sannar Selma í skrifum sínum að myndskurðurinn sé hluti af býsanskri dómsdagsmynd og sé að stíl ná- tengdur þeirri list sem þróaðist í Monte Cassino-klaustrinu á Ítalíu eftir miðja 11. öld. Önnur rit eftir Selmu eru Saga Maríumyndar (útg. 1964), Lýsingar í Stjórnarhandriti (útg. 1971) og Lýsingar í Helgastaðabók (útg 1982) auk fjölda ritgerða í tímaritum. Í minningargrein um Selmu frá Félagi íslenskra listfræðinga er komist svo að orði: „Á sérsviði sínu, miðaldalist, vann hún mikið og merkt brautryðjandastarf. Þekking og áræðni einkenndu rannsóknarstörf hennar.“

Draumur verður að veruleika

Selmu dreymdi stóra drauma um framtíð Listasafns Íslands, sá fyrir sér sjálfstæða safnbyggingu, iðandi af mannlífi. Hún vildi veg safnsins sem mestan.

Hún fylgdi áhuga sínum fast eftir og leitaði lengi að réttri staðsetningu. Að lokum tók hún af skarið með tillögu um staðsetningu safnsins í miðborg Reykjavíkur en ekki utan þéttbýlis sem mörgum þótti þá álitlegur kostur. Hún var hugmyndasmiðurinn og driffjöðrin á bak við þá aðgerð þegar ríkissjóður hafði makaskipti við þáverandi eigendur brunarústa að Fríkirkjuvegi 7 til þess að við Tjörnina í Reykjavík yrði framtíðar aðsetur Listasafns Íslands.

Selma leitaði fanga um ráðgjöf og hugmyndir til margra af fremstu listasöfnum Bandaríkjanna sem og Norðurlandanna varðandi gæði, öryggismál, varðveislu, lýsingu og allan að- búnað safnsins. Allir hlutir voru gaumgæfilega metnir því vel skyldi vandað til verks. Sjálf gekk hún þar fremst í flokki.

Selma sá nánast draum sinn verða að veruleika við Fríkirkjuveginn.

Hún sá hilla undir lok verksins þótt ekki entist henni aldur til að taka þátt í vígslu nýju heimkynna Listasafns Íslands 30. janúar 1988.

Selma lést í Reykjavík 5. júlí 1987.


Selma Jónsdóttir spjaldskrá

Skjalasafn Selmu er varðveitt á Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar og inniheldur meðal annars vinnugögn hennar og bréfasafn.

Eftirtaldir aðilar hafa samstarf um að minnast Dr. Selmu á afmælisárinu: Kvennasögusafn Íslands, Landsbókasafn-HáskólabókasafnListasafn Íslands, Listfræðafélag ÍslandsSafnahús Borgarfjarðar og Þjóðminjasafn Íslands.